«

»

Molar um málfar og miðla1434

 

Einar Örn Thorlacius sendi Molum eftirfarandi um málsmekk:
Um tölu og greini í íslensku:
Það er ekkert rangt við að tala t.d. um Norðurlandið, Vestfirðina og Austurlandið í staðinn fyrir að tala um Norðurland, Vestfirði og Austurland. Það er heldur ekkert rangt við að notað orðið „vara“ ætíð í fleirtölu og tala um vörur en ekki vöru. Þá er talað um t.d. hver sé eigandi varanna í tilteknu vöruhúsi en ekki hver sé eigandi vörunnar.
Það skiptir hins vegar fleira máli í málnotkun en „rétt“ og „rangt.“ Málsmekkur skiptir líka máli. Hann er auðvitað mismunandi á milli málnotenda.
Ef við tökum fyrst ákveðna greininn þá býr íslenska við þann hrylling (t.d. öfugt við ensku) að vera með viðskeyttan greini. Við bætist síðan að íslenskan er mikið beygingamál. Útkoman er ekkert sérlega góð. Við þennan vanda má einfaldlega losna með því að stilla notkun ákveðins greinis í hóf. Ákveðinn greinir er notaður miklu meira t.d. í norsku en íslensku og fer sennilega ágætlega þar. Mér finnst hins vegar notkun ákveðins greinis vera að aukast mikið í íslensku til lítillar prýði fyrir málið.
Mér finnst fallegt að tala um Norðurland, Suðurland og Vestfirði. Mér finnst ljótt þegar fólk getur aldrei nefnt þessi landsvæði nema að klína hinum viðskeytta greini á þessi hugtök. Þá er ætíð talað um „Norðurlandið“, „Suðurlandið“ og „Vestfirðina.“
Varðandi orðið „vörur“ virðist fólk hafa gleymt því að til er eintala af þessu orði sem er „vara“ og getur vel táknað meira en einn vöruflokk. Sérstaklega finnst mér eignarfall fleirtölu (eigandi „varanna“) vera ljótt miðað við eintöluna (eigandi „vörunnar“).
Því legg ég til að fólk hvíli um sinn Vestfirðina, Norðurlandið og Austfirðina og tali í staðinn um Vestfirði, Norðurland og Austfirði. Jafnframt er yfirleitt alger óþarfi að nota orðið vara í fleirtölu, enda þótt svo vilji til að enska orðið yfir vöru („goods“) sé fleirtöluorð.Svo er reyndar til fyrirbærið „verðlagsnefnd búvara.“ Mér fyndist smekklegra ef þessi nefnd héti „verðlagsnefnd búvöru.” Molaskrifari þakkar Einari þennan ágæta pistil.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>