«

»

Molar um málfar og miðla 1435

Þessi setning er á forsíðu Fréttablaðsins (14.03.2014): Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja ríkisstjórnina hafa verið fíflaða. Sögnin að fífla þýðir að fleka eða tæla til kynmaka.

 

Úr frétt í Morgunblaðinu (15.03.2014): Samtök atvinnulífsins segja framhaldsskólakennara ekki hafa tekist að útskýra launakröfur sinar fyrir almenningi með skiljanlegum hætti. Hér ætti að standa: Samtök atvinnulífsins segja framhaldsskólakennurum ekki hafa tekist að útskýra …. Nema átt sé við einn framhaldsskólakennara. Svo er þó ekki! Í sama tölublaði Morgunblaðsins er fyrirsögn sem Molaskrifara finnst ekki fara vel. Hún er svona: Óhuggandi barn aðstæður sem hann réði ekki við.

 

Molaskrifari var búinn að gleyma því að Fréttastofu Ríkisútvarpsins þóknast ekki að vera með fréttir og fréttayfirlit á sömu tímum um helgar og virka daga. Gamaldags hugsunarháttur og illskiljanlegur. Á laugardagsmorgni (15.03.2014) ætlaði skrifari að hlusta á fréttayfirlit klukkan hálf átta, en greip í tómt. Í staðinn hlustaði hann á gamla, bráðskemmtilega útvarpserlu frá 1970 eða þar um bil. Þátturinn hét Að vera skemmtilegur. Umsjónarmenn voru Árni Þórarinsson og Björn Vignir Sigurpálsson. Rætt var við þá Flosa Ólafsson, Friðfinn Ólafsson og Ómar Ragnarsson. Þeir voru hver öðrum skemmtilegri.

 

Af mbl.is (15.03.2014): Hann segir að samkvæmt upplýsingar úr gervihnöttum og úr ratsjám sýni fram á að vélin hafi síðan breytt um stefnu og að hún gæti hafa flogið áfram í um sjö klukkustundir, — Hér hefur eitthvað skort á yfirlestur áður en fréttin var birt. Samkvæmt upplýsingum …

 

Það er heldur slakur fréttadagur (14.03.2014) þegar það nær inn í hádegisfréttir, að garðeigandi á Egilsstöðum sé harmi sleginn  vegna þess að sagað hafi verið af hálfrar aldar gömlu birki tré í garði hans! Hér finnst Molaskrifara eins og verið sé að gengisfella orðatiltækið harmi sleginn, þótt vafalaust hafi garðeigandanum þótt þetta miður.

 

Ástæða er til að vekja athygli á prýðilegum Tungutakspistli Guðrúnar Egilson á bls. 28 í Morgunblaðinu á laugardag (15.03.2014). Pistillinn heitir : Um gelda og ógelda þolmynd. Kærar þakkir, Guðrún. Þörf áminning.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>