Aðilabullið er endalaust. Allir eru aðilar. Nýjasta dæmið sem Molaskrifari hefur hnotið um er í stórri auglýsingu (25.06.09.) í Fréttablaðinu. Þar segir stórum stöfum: Aðstoðaraðili óskast í eldhús leikskólans Hamravalla. Aðstoðaraðili, heyr á endemi ! Af hverju er ekki auglýst eftir aðstoðarmanni? Eða aðstoðarmanni/konu fyrir þá sem vita ekki að konur eru menn. Molaskrifari er ekki einn um að láta aðila fara taugarnar á sér. Víkverji Morgunblaðsins skrifar ágætan pistil um aðila fimmtudaginn 25.júní.
Bloggari skrifar(25.06.09.): Steve McCurry skaut yfir 800 þúsund myndir á Kodachrome. Á íslensku skjóta menn ekki myndir. Menn taka myndir. Afkáraleg aulaþýðing.
Í fréttum Stöðvar tvö (25.06.09.) var sagt frá fundi Alþjóða hvalveiðiráðsins, sem var að ljúka á Madeira í Portúgal. Madeira er eyja í Atlantshafinu og tilheyrir Portúgal. Hún er ekki í Portúgal.
Ekki samræmist það máltilfinningu minni að tala um að selja heimili og að heimili sé eign eignarhaldsfélags. Þannig var talað í fréttum Stöðvar tvö (25.06.09.) þegar fjallað var um ævintýraleg viðskipti Hannesar Smárasonar og húseignir hans við Fjölnisveg í Reykjavík. Eðlilegt er selja hús og þarna var samkvæmt minni málkennd verið að selja hús en ekki heimili.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eygló skrifar:
28/06/2009 at 02:05 (UTC 0)
Man þegar allt var „aðilavætt“ fyrir 25-30 árum. Þá var aðallega fjargviðrast um hvort segja ætti/mætti aðilja. Þá var haft eftir þekktum manni að hann teldi að nota bæri „j“ – svo ekki yrði joðskortur í landinu 🙂 Góð björgun 🙂
Sigurður Þór Guðjónsson skrifar:
28/06/2009 at 00:43 (UTC 0)
Já, menn skrifa jafnvel um kattaðila!