Aftur og aftur eru það sömu orðin, sem verða fréttaskrifurum að fótakefli. Í fyrirsögn í vefmogga sagði (27.06.09.): Vilja forða slysi við lagasetningu. Sögnin að forða þýðir að bjarga eða koma undan. Fram ,fram fylking, forðum okkur háska frá. Það er ekkert til sem heitir að forða slysi. Það er hinsvegar stundum mögulegt að gera ráðstafanir,sem geta komið í veg fyrir slys. Blaðamenn ættu að forðast að nota orð sem þeir kunna ekki með að fara.
Svo eru hér tvær athugasemdir, lítilvægar sjálfsagt og flokkast líklega undir sérvisku skrifara. Sagt var í sjónvarpi ríkisins að fréttir yrðu í fyrra fallinu. Eðlilegra finnst mér að segja: Fréttir verða með fyrra fallinu. Þá var sagt á sama vettvangi að ófremdarástand hefði myndast. Þarna hefði mér þótt betur fara að segja að ófremdarástand hefði skapast.
Bátur hans liggur innsiglaður við höfnina, sagði fréttaþulur (28.06.09.) Stöðvar tvö. Bátur liggur ekki við höfn. Bátur liggur við bryggju í höfn.
Alltaf á ég jafnerfitt með að fella mig við þegar umsjónarmenn tónlistarþátta kalla gömul sígild lög númer eða standarda. Það gerði Ólafur Þórðarson í fínum tónlistarþætti á Rás 1 27.06.09. Hann fjallaði um borgina New Orleans. Saknaði ég þess þó að hann skyldi ekki leika lagið góða, Do you Know What it Means to Miss New Orleans,sem Louis Armstrong flytur svo frábærlega. Ólafur minntist líka á Old Preservation Hall í New Orleans. Þar sat ég tvö kvöld í röð haustið 1979 á baklausum hörðum trébekk og hlýddi á gamla blökkumenn, karla og konur leika yndislegan jazz. Þá var gaman. Mig minnir að aðgangurinn hafi kostað einn dal og ekki voru neinar veitingar í boði, nema þessi ógleymanlega tónlist sem hljóðfæraleikararnir lögðu sál sína í. En þetta var nú útúrdúr!
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Júlíus Björnsson skrifar:
29/06/2009 at 17:40 (UTC 0)
Forða e-m við e-u. Orðabók Menningarsjóðs. M.ö.o vilja bjarga slysinu frá lagsetningu. Sem er dæmi um rökvillu, mjög algengt hjá nútíma Íslendingum.
Rétt væri að álykta að ef lagasetning kæmi til þá væri búið að koma í veg fyrir slys.
Ef einhver segir bátur liggur við höfnina, þá skil ég það svo að hann liggi ekki við bryggju heldur einhversstaðar nálægt út á sjó: ekki kominn í höfn.
Ævar Rafn Kjartansson skrifar:
29/06/2009 at 14:34 (UTC 0)
Takk fyrir fróðlega pistla.