«

»

Molar um málfar og miðla CII

 

Sjónvarpsfréttir  RÚV ( 07.07.2009)  og Þóra Arnórsdóttir  í Kastljósi fá  prik  fyrir umfjöllun um Sjóvá-Milestone -Askar  svindlið. Varpað var ljósi á  málið og þetta skýrt á mannamáli. Vilhjálmur Bjarnason hitti naglann á  höfðuðið í lokin, – eins og hann hefur  svo oft gert.  Fáránlegt er hinsvegar  að Kastljós  skuli fara í  sumarfrí , þegar Alþingi  er að ljúka  störfum  og ótal mál á  lokasnúningi.  Dæmigert  stjórnleysi hjá RÚV. Kastljós hefði  átt að  bíða þingloka með  sumarleyfi.

 Skrifað stendur  á Vefvísi (04.07.2009): …verktakafyrirtækið KNH ehf., þarf að staðgreiða fyrir tækjabúnaði þar sem breskt fyrirtæki treystir ekki íslenskum bönkum. Hér hefði átt að segja: staðgreiða tækjabúnað. Einfalt mál? Ekki fyrir þann sem er illa að sér í íslensku.

Vefdv skartar eftirfarandi (06.07.2009):  … segir móðir stúlkunnar að hana hafi hlakkað mikið til heimsóknarinnar.  Meiri snilld úr  sama vefmiðli:  Hún játaði einnig að hafa ekið bifreið frá Reykjavík uns vestan við Markarfljót þegar lögregla hafði afskipti af henni. Ekki verður sagt að mikið fari  fyrir skýrri hugsun í þessari setningu.

Auglýsingastofur eiga margar erfitt með að koma frá sér óbjöguðum texta. Í helgarútgáfu  Fréttablaðsins (04.07.2009)  stóð  eftirfarandi í auglýsingu frá Korputorgi:  Þeir sem versla á Korputorgi   býðst að taka þátt í léttum og skemmtilegum  ratleik

Ótrúlega margar villur eru í stuttri frétti á Vefvísi (06.07.2009) um bát sem leki kom að á Skagafirði.  Fyrst   er sagt  að  báturinn  hafi verið í  Skagafirði,  – það er inni í landi, –  auðvitað var  báturinn á  Skagafirði.  Í  öðru lagi er  tvísagt að lekið hafi komið að  bát, ekki báti eins og  rétt  er.Beygingin er  bátur,  bát, báti , báts. Þá er  sagt að  báturinn hafi  verið  2,5  sjómílum  frá  Drangey, en á  auðvitað að vera  2,5  sjómílur. Það er afrek út af fyrir  sig  að koma  svo mörgum  villum í svo fáar línur. Á fréttavef RÚV (06.07.2009) er fyrirsögn á  frétt um þennan  sama atburð: Björguðu sjómanni norðan af Drangey ! Hér   hefði  átt   að  segja  norður af Drangey.  

Meira af Vefvísi (06.07.2009). Í frétt um  slys  í Hvalfjarðargöngum segir: Ekki er ljóst á þessari stundu hvenær göngin opna.  Hvenær göngin opna hvað? Það sem  skrifari á  við er að  ekki sé ljóst hvenær  göngin verði opnuð.

Við  erum að sjá verulega aukningu í komum á þjónustumiðstöðvar borgarinnar ,sagði  embættismaður  Reykjavíkurborgar (04.07.2009) í  hádegisfréttum RÚV.

Svo væri ekki úr vegi að fréttamenn RÚV samræmdu framburð sinn á  heiti  frumbyggjanna í Xinjiang í Kína og höfuðborginni þar Urumqi. Þar er að gerast mikil  sorgarsaga. Þetta er  gríðarlega áhugavert  land. Borgirnar Kashgar og Urumqi eru einhverjar þær eftirminnilegustu sem ég hef heimsótt og  eiga sér merka  sögu. Gamla Austur Túrkestan er eitt af löndum  framtíðarinnar auðlindaríkt og áhugavert  fyrir margra hluta sakir.

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eirný Vals skrifar:

    Ég hlustaði á fréttir í morgun. Þar var sagt frá liðum sem innihéldu tvo menn

    Ég hef alltaf haldið að ég væri í liði, veit nú að ég er innihald liðs.

    Þakka góða pistla, Eirný

  2. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Verð að  viðurkenna  að ég hef aldrei  fyrr heyrt talað um einkaheimili ! En  auðvitað átti  bara að tala um heimili. Einkaheimili finnst mér  vera  rugl.

  3. Benedikt skrifar:

    Í hádegisfréttum RÚV í gær var fjallað talsvert um húsleitirnar hjá Sjóvá og Milestone. Kom þar fram að leitað væri í fyrirtækjunum sem og á „einkaheimilum“ starfsmanna.

    Seinna um daginn voru þetta hins vegar orðin heimili starfsmanna, sem mér finnst betra mál. En finnst fólki kannski fallegra að tala um einkaheimili fólks frekar en heimili?

  4. Eiður skrifar:

     Það er  alveg rétt, Haukur, að fara erlendis er ambaga. Það er  hægt að vera erlendis en ekki  fara erlendis, heldur   fara utan eða  til útlanda, eins og þú réttilega bendir á.

    Brottflutningaland,  eða  brottflutningsland  finnst mér  vera  endemis klúður. Af hverju ekki að tala  um löndin  eða  landið sem  flutt er  til  eða  frá ?

  5. Haukur Kristinsson skrifar:

    Í Speglinum rétt áðan var viðtal við Ólöfu Garðarsdóttur varðandi flutninga Íslendinga til útlanda á síðustu tímum. Hún talaði um að fara erlendis, þar sem hún átti við að fara til útlanda eða fara utan. Þetta getur varla verið rétt. Þá talaði hún um Norðurlöndin sem helstu brottflutningalöndin fyrir Íslendinga. Er ekki Ísland brottflutningalandið, en ekki t.d. Noregur í þessu samheng?  

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>