Molahöfundur gerðist svo djarfur að senda fréttastofu Ríkisútvarpsins vinsamlega ábendingu um framburð á nafni borgarinnar Urumqi í vestur Kína eða gamla Austur Túrkestan sem mjög er í fréttum þessa dagana. Það hafði ekki áhrif því í fréttum (08.07.2009) kallaði fréttaþulur (útvarpsstjóri) borgina Úrúmkí, sem er rangt. Ekki þarf annað en að fletta upp í Merriam-Webster Online Dictionary á netinu, þar er hægt að hlusta á þrennskonar framburð þessa borgarheitis. RÚV framburðinn Úrúmkí er þar ekki að finna. Skylt er að geta þess að í átta fréttum RÚV (09.07.2009)var rétt farið með bæði nafn borgarinnar og frumbyggja svæðisins.
Í Molum hefur áður verið agnúast út í fyrirtæki sem nota slettuna tax free í auglýsingum. Á það hefur verið bent að fyrirtæki hafa ekki leyfi til að fella niður virðisaukaskatt af seldum vörum, en þau geta auðvitað gefið viðskiptavinum afslátt sem nemur virðisaukaskattsprósentunni. Steininn tekur úr þegar Húsasmiðjan auglýsir tax free af öllu pallaefni. Þetta er einstaklega óvandað málfar.Eiginlega málleysa. Fyrirtæki sem eru vönd að virðingu sinni eiga að hafa auglýsingar á vönduðu máli, – á góðri íslensku ekki á hrognamáli.
Úr Vefmogga (08.07.2009): …stefna og lega mengunarinnar bendir þó til að ólíklegt sé að hún komi frá skipi á siglingu. Verð að játa , að ekki átta ég mig á hvað stefna og lega mengunarinnar er. Nema það sé staðsetning olíuflekksins sem fréttin er um.
Í Mogga (09.07.2009) er sagt frá því í efnistilvísun á baksíðu að Ragnar Bjarnason syngi djass-standarda. Orðið standard er ekki nýtt í íslensku, Orðið staðall hefur þó nær alveg komið í staðinn fyrir það í merkingunni gæðastig. Enn heyrist það þó notað í merkingunni venjulegt. samkvæmt reglum, t.d. standard þykkt. Mig minnir að í bernsku hafi ég heyrt talað um standard lampa, en það er frá Bretlandi komið, seinna varð þetta standlampi, sem er gegnsætt og ágætt orð. Líka minnist ég þess að hafa heyrt standard sem einhverskonar mælieiningu um timbur (í miklu magni) en ekki hefur mér tekist að finna því stað. Hinsvegar er algjör óþarfi að nota enskuna standard um gömul og vinsæl lög. Á tímabili töluðu þulir RÚV mikið um big band tónlist,um leik fjölmennra djasshljómsveita, en orðið stórsveit hefur útrýmt þeirri slettu .
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Steini Briem skrifar:
09/07/2009 at 23:49 (UTC 0)
Fréttamaðurinn kallaði ostaskera reyndar ostaskerara.
Það er ódýr skemmtun í kreppunni að horfa á Frakka reyna að nota ostaskera, því þeir hafa yfirleitt ekki hugmynd um hvernig nota á það verkfæri.
Árni Gunnarsson skrifar:
09/07/2009 at 22:27 (UTC 0)
Og nú í kvöldfréttatíma ríkissjónvarpsins kom innsláttur frá spjalli fréttakonu við Ólaf Guðmundsson frá Umferðarstofu (held ég). Þau voru stödd á þjóðv. 1 í Svínahrauni og ræddu um vegriðið: „Nú kalla ökumenn mótorhjólanna þetta fyrir ostaskera“ sagði fréttakonan á máli leikskólabarnanna. Dálítið merkilegt málfar sem tíðkast á þessum fréttastofum núorðið.
Eiður Guðnason skrifar:
09/07/2009 at 19:53 (UTC 0)
Kærar þakkir fyrir þessa skýringu ,Steingrímur. Ég var búinn að leita í orðabók og á netinu en fann hvergi skýringu á standard sem mælieiningu fyrir timbur, en nú er hún komin. Ég mundi að hafa heyrt talað um þetta er ég var unglingur að vinna við uppskipun á timbri í Reykjavíkurhöfn 1954 eða þar í kring. Svo má líka bæta því við að Bretar framleiddu bíla af gerðinni Standard á sínum tíma !
Steini Briem skrifar:
09/07/2009 at 18:29 (UTC 0)
Ég er alveg sammála þér í þessu máli, Eiður.
Þá væri einnig nauðsynlegt að gera það að skilyrði til að fólk fengi að gegna stöðu alþingismanna þjóðarinnar eða ráðherra að það stæðist lágmarkskröfur í málnotkun, meðal annars framsögn. Það er ákaflega ótrúverðugt að þurfa að hlusta á þingmann eða ráðherra sem vefst tunga um tönn og fimbulfambar hverju sinni sem hann svara spurningu fréttamanns. Það er nú einu sinni orðið eitt meginhlutverk þessara kjörnu fulltrúa að standa fréttamannavaktir.
Vefsetur Sverris Páls – Mannamál
Steingrímur Kristinsson skrifar:
09/07/2009 at 17:50 (UTC 0)
Það má ef til vill hártoga orðið djass-standarda í nefndri auglýsingu. Raunar nokkuð tvíbent, þar sem orðið standard hefur einnig aðra merkingu en staðall.
En orðið standard var mikið notað á Siglufirði, Akureyri og ef til vill víðar á fyrri tímum, til dæmis á síldarárunum, og var raunar föst málvenja um mælieiningu. „Standard ; „Petrograd-Standard“ (timbur) er sama og 165 cubic fet sem er það sama og 4,672 m³. (Heimild: Fjölvís vasabók 2001). 400 standard af tunnuefni er því sama og 1868 rúmmetrar“
En ekki var talað um annað en standarda af timbri, td. tunnuefni til Tunnuverksmiðju ríkisins og fleiri aðila, þegar rúmmál farms eða innkaupa var mikill.
Undirritaður er 75 ára og þekkti þessa málvenju vel frá miðri síðustu öld á Siglufirði.
Þetta er sett hér fram fyrst og fremst til fróðleiks .
Annars er það mikil eindæmis furða, að krökkum og unglingum í grunnskólum og háskólum sá hvorki kennt að tala né skrifa, en svo mætti halda miðað við skrif sumra þessara yngri menntamanna og viðmælendur á götunni sem fréttamenn á ljósvakamiðlum spyrja spurninga, svörin sem stundum er alls ekki hægt að skilja vegna þess að þeir tala hálfgert hrognamá, svo hratt að vart er hægt að átta sig hver svarið er, jafn vel einnig í auglýsingum.
Eiður skrifar:
09/07/2009 at 17:28 (UTC 0)
Veit ég vel, Steini. En af hverju ekki nota íslenskuna og segja: Sígild jasslög ?