«

»

Molar um málfar og miðla 1530

Síðbúnar þakkir til, Ríkissjónvarpsins fyrir að endursýna 20. júlí þátt um dr. Sigurð Nordal frá árinu 2012. Þátturinn var einstaklega vel og smekklega gerður, – eiga allir þeir sem því verki komu hrós skilið. Molaskrifari ætlaði að horfa á þáttinn í mikið auglýstri tímavél í Sjónvarpi Símans. Það var ekki hægt. Í spjaldtölvu var þátturinn prýðilega aðgengilegur á vef Ríkisútvarpsins þar sem þjónusta er yfirleitt með ágætum.

 

Málglöggur Molalesandi benti Molaskrifara á að í velflestum fjölmiðlum hefði nýtt fiskiskip sem kom til Eyja á föstudag (25.07.2014) verið kallað uppsjávarskip! Hann spurði hvort nauðsynlegt hefði verið að taka þetta fram svo lesendur/hlustendur teldu ekki að hér væri um neðansjávarskip eða kafbát að ræða! Molaskrifari tekur undir , að þetta er dálítið undarlega til orða tekið.

Svona var þetta á mbl.is: Sig­urður VE er 3763 lesta upp­sjáv­ar­skip, og svona á fréttavef Ríkisútvarpsins: Forsvarsmenn Ísfélags Vestmannaeyja segja að Sigurður VE, sem kom til Eyja í dag, sé stærsta uppsjávarskip landsins.

 

Í helgarblaði DV (26.07-28.07.2014) segir: ,,… sýndi samvinnuþýðu og ber af sér sakir.” Hvað er samvinnuþýða. Hvað þýðir samvinnuþýða? Sennilega er átt við að maðurinn hafi verið samvinnufús, samvinnuþýður.

Í helgarblaði Féttablaðsins sömu helgi segir: ,, Tveimur fluguveiðistöngum af dýru merki var stolið …” Hér hefði nægt að segja að tveimur dýrum fluguveiðistöngum hefði verið stolið.

 

Skipið var sjósett við mikinn mannfögnuð, sagði fréttamaður Bylgjunnar (27.07.20145). Ekki finnst Molaskrifara þetta vera gott orðalag.

Í fréttum Bylgjunnar þennan sama dag var ýmist talað um Borgarfjörð eystri eða Borgarfjörð eystra. Molaskrifari leitaði sér upplýsinga, því hann velktist í vafa. Sjá: https://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6086

 

Skotglös er nýyrði,sem Molaskrifari játar að hafa ekki heyrt áður. Hann rakst á orðið á fréttavef Ríkisútvarpsins. Það er notað yfir það sem einu sinni ( og enn hjá sumum) er kallað snafsaglas. Hvað er að því ágæta orðið. Skotglas er bersýnilega yfirfært, fengið að láni, í íslensku úr ensku, shotglass.

http://www.ruv.is/frett/skotglos-thakin-hrauni-thottu-best

 

Á mánudagsmorgni (28.07.2014) komu áhafnarmeðlimir enn við sögu í fréttum Ríkisútvarps. Er það nýjum fréttastjóra og málfarráðunaut (sé hann enn við störf) um megn að kenna fréttamönnum að forðast þetta orð?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>