«

»

Molar um málfar og miðla CVII

Úr Vefdv (18.07.2009): …og er með 24 áhafnarmeðlimi um borð. Fréttin er um sómalska  sjóræningja,sem  rænt hafa  flutningaskipi.  Lífseig ambaga áhafnarmeðlimir. Af hverju ekki : Um borð  eru  24 skipverjar  , eða ,á  skipinu er 24 manna áhöfn? Í kynningu á  efni þáttarins Íslands í  dag var í liðinni viku á   Stöð  tvö  sagt : hljómsveitin inniheldur meðlimi..  Það er aldeilis  merkilegt innihald. Þetta eru  ambögur  sem   sjást og heyrast  aftur og  aftur  rétt eins og ársgrundvölllurinn gamalkunni,sem kom við  sögu (16.07.200) í hádeghisfréttum  RÚV.

Úr Vefvísi (18.07.2009)…þegar sumarbústaður sem þau dvelja í fór að nötra. Fréttin var um þrumuveður á  Suðurlandi. Þarna  hefði Molaskrifara þótt  eðlilegra  að  segja: sem þau  dveljast í.  Í orðabókum er  aðalmerking  sagnarinnar að dvelja að  tefja, hindra, draga á langinn, sbr. hvað dvelur Orminn langa.

Þeim greindi á, sagði varaformaður  Borgarahreyfingarinnar í fréttum (19.07.2009). Einhverja  greinir  á,  ekki einhverjum.

Í  Kastljósi RÚV  var Anna Ólafsdóttir  Björnsson kynnt  sem  fulltrúi Heimssýn. Beygingafælni enn á   ferð.  Konan var  fulltrúi  Heimssýnar, sem  mér  finnst  raunar að  ætti að skrifa  með  einu   essi.

Vafalaust  hefur  Þorgerður  Katrín Gunnarsdóttir  breitt  bak og  sterkt,enda  stæðileg kona.  Stjórnmálafræðingur sagði í fréttum Stöðvar tvö (19.07.200)  að Evrópusinnar mundu þjappa sér að baki hennar.  Betra hefði mér fundist að  tala um  að standa  þétt   við  bakið á henni. En kannski er þetta sérviska í mér.

 Í fréttum Stöðvar tvö  (15.07.2009) sagði fréttaþulur: .. þar sem  skipið  tók niður.  Skip taka niðri, þegar  kjölur þeirra  snertir  botn eða þau  steyta á  skeri.  Að taka niður er  notað um skepnur, sem  bíta  glefsu  eða kroppa lítið eitt.

Í fréttum  Rúv  (18.07.2009)  Var  sagt: Þyrlan lenti á  Borgarsjúkrahúsinu.  Sem  betur   fer  lenti  þyrlan ekki á  sjúkrahúsinu, heldur  hjá  sjúkrahúsinu.Og  svo hélt ég   að  Borgarsjúkrahúsið  væri  ekki  lengur  til. Það sem áður  hét   Borgarsjúkrahús er nú  yfirleitt kallað  Landspítalinn í Fossvogi.

Í fréttum RÚV  þennan  sama  dag var fjallað  illt  hlutskipti  fólks í  tilteknu landi  þar sem  tveir af  hverjum þremur  býr  við  sult og  seyru. Einn býr, en tveir búa.

Áfram (20.07.2009) tönnlast  svokölluð  Morgunfrú á  Rás eitt, RÚV,  á því að  kirkjuklukkur   tilheyri tiltekinni  kirkju. Molaskrifara finnst þetta ótækt  orðalag. Rismeira og  fallegra mál  væri  að segja: Hringt var  klukkum Víðmýrarkirkju, í stað þess að   segja klukkurnar tilheyra  Víðmýrarkirkju.

Molaskrifari er   samkvæmt  auglýsingu RÚV  einn af  tæplega 320 þúsund eigendum Ríkisútvarpsins. Þessvegna  er   auðvitað  ástæðulaust  að hlusta á hvað hann hefur  fram  að  færa  eða  svara  vinsamlegum ábendingum sem  sendar eru í  tölvupósti.  Það er líka starfsfólkið sem  ræður, líklega kemur  þessum  svokölluðu  eigendum  þetta bara ekkert við.

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Haukur Kristinsson skrifar:

    Mjög fróðlegt að lesa þína mola Eiður, en varla „gaman“. Orð eins og „áhafnarmeðlimur“ er þvílíkt skrýmsli, að manni dettur helst í hug að sá sem lét þetta frá sér fara sé einhver „Mitglied“ þýskrar fjölskyldu. Tukthúslimur er eitt af fáum orðum þar sem limur fer vel. Þannig séð verða vonandi þessir „áhafnarmeðlimir“ fljótlega tukthúslimir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>