«

»

Molar um málfar og miðla CVIII

Af Vefvísi (20.07.2009):  Hestakerra sem var í eftirdragi pallbifreiðar valt á hliðina í Hveradalabrekku á sunnudagskvöldinu en í kerrunni voru þrír hestar.Samkvæmt lögreglunni á Selfossi sluppu hestarnir ómeiddir. Vitni sagði að kerran hefði farið að rása að aftan í dráttarbifreiðinni og það varð til þess að hún valt. Einstaklega  lipurlega og  fagmannlega skrifað,   ekki satt ?  

Meira af Vefvísi (21.07.2009):  ..þegar önnur árin brotnaði og báturinn fór að reka út á vatnið undan vindstrekkingi.  Hvað  fór  báturinn að reka út á  vatnið? Hér  ætti að  standa:…og bátinn fór að reka út á vatnið.  

Enn meira af Vefvísi (21.07.2009):  Fjórir einstaklingar voru um borð í bíl sem fór út af veginum ..Um borð í  bíl?  Af hverju  ekki bara í bíl?

Stundum ættu fréttamenn  að  skýra orð sem koma  fyrir í fréttum. Í frásögnum af eldsvoða á  Akureyri var talað um að  eldur hafi  verið í reiðingi  milli þilja.Ekki er  ég viss um að  allir  hlustendur/lesendur hafi vitað að reiðingur er: Dýnur eða torfur (úr seigum grassverði eða melgrasrótum) undir klyfbera á áburðarhesti (torfa og framanundirlag þvert yfir hestinn og  dýna  á hvorri hlið) Íslensk orðabók,bls. 1174. Þar er líka  fín skýringarmynd.  Mjög algengt  var á árum áður  að  nota  reiðingstorfur  til  einangrunar útveggja  í  timburhúsum.  

Kunnur bloggari, háskólamenntaður,  skrifar (21.07.2009): Höfundur Staksteina finnst að verið sé að gera einfalt mál flókið. Hér ætti  auðvitað að standa  Höfundi  finnst ,eða  höfundur  telur.

 Þegar þrettán mínútur  lifðu af leiknum,  sagði íþróttafréttamaður (20.07.2009) Stöðvar tvö. Ekki  fellir  Molahöfundur sig  við þetta  orðalag. Af hverju ekki: Þegar þrettán mínútur  voru til leiksloka ? Íþróttafréttamaður  RÚV sjónvarps sagði (21.07.2009) í þáttarlok:  Við sjáumst aftur í næstu viku, þangað til,  verið þið  sæl !

 Í sjónvarpsfréttum RÚV  (20.07.2009)    var  talað um að eiga í  fullu fangi með eitthvað. Þannig  hef ég  aldrei  heyrt til orða  tekið.  Venjulega er  talað um að  eiga  fullt í fangi með e-ð,  eiga í erfiðleikum með  e-ð.  Á sama vettvangi (21.07.2009) var   verið að  segja frá  neðansjávarfjalli  í grennd  við Ísland og  var   sagt að fjallið væri með  flötum  gíg á  toppnum.  Flatur  gígur? Það vefst fyrir mér  að skilja það.

Í fréttum Stöðvar 2 (21.07.2009) var fjallað um  svokallaða  svínaflensu og Íslendinga sem  sýkst hafa. Þá  sagði fréttamaður: Þrjú tilfellanna hafa ekki ferðast  erlendis.  Fáránlegt orðalag. Tilfelli á  ferðalagi!!!

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Steini Briem skrifar:

    Þessi ritsóði á Mbl.is gefst ekki upp:

    Bílvelta varð á Reykjanesbraut á milli álversins í Straumsvík og Hafnarfjarðar um klukkan fjögur í dag.“

    Bílvelta á Reykjanesbraut

    Mbl.is:

    Fréttastjóri: Guðmundur Sv. Hermannsson, gummi@mbl.is, sími 569 12 69

    Aðstoðarfréttastjóri: Guðrún Hálfdánardóttir, guna@mbl.is, sími 569 13 60

    Prófarkalestur: lestur@mbl.is

    Ritstjórn: ritstjorn@mbl.is

  2. Birgir Örn Birgisson skrifar:

    Sæll Eiður,

    Ég vil enn og aftur þakka fyrir góð skrif.

    Þar sem ég á enn margt eftir ólært þá sakna ég þess stundum að þú útskýrir hlutina betur. Oftast kemur fram í skrifum þínum hvað sé rangt og hvað mætti betur fara en það er ekki regla. Ég held að fleirri einstaklingar muni njóti skrifa þinna betur ef þú hugar að þessu.

    Kveðja
    Birgir Örn

  3. Sigrún Óskars skrifar:

    það er líka ótrúlegt orðalag þegar verið er að þýða fréttir. Svo skrifa þeir ekki nafnið sitt við fréttirnar – láta ekki bendla sig við þær.

  4. Steini Briem skrifar:

    Maðurinn varð fyrir beinbrotum en er talinn heppinn að hafa ekki slasast verr.“

    Farþeganum heilsast eftir atvikum vel

  5. Arnar Guðmundsson skrifar:

    ÞETTA VERÐUR AÐ LAGA

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>