Í tíu fréttum RÚV sjónvarps (21.07.2009) var sagt: Davíð Bragi Konráðsson fornleifafræðingur brá í brún þegar… Betur hefði fréttamaður sagt: Davíð Braga Konráðssyni fornleifafræðingi brá í brún þegar.. Í sama fréttatíma var sagt að Icesave málið væri þungt á fæti. Rugl. Kannski mætti segja málið þungt í vöfum, eða bara erfitt viðfangs.
Af Vefdv (21.07.2009): ..þar sem gerðar eru athugasemdir við hjólbarða konunnar … Það sem blaðamaður á við er að gerðar hafi verið athugasemdir við hjólbarðana á bíl konunnar. Varla hefur konukindin verið á hjólbörðum.
Hvenær rífur þingmaður trúnað? Þannig spyr bloggari á Moggabloggi. Þjóðin veit að margir þingmenn rífa kjaft. Bloggari er ekki góður í stafsetningu. Hann hefði átt að skrifa: Hvenær rýfur þingmaður trúnað? Rýfur af að rjúfa.
Venjuleg og algeng ambaga í Vefmogga (22.07.2009): ..á flugvellinum í Toronto hafi heyrst tilkynnt í hátalarakerfinu að þeir sem hefðu keypt áfengi á vellinum væri ráðlagt að skila því. Hér ætti auðvitað að standa: ..að þeim sem hefðu keypt áfengi á vellinum væri ráðlagt að skila því.
Fyrirtækið Rekkjan og auglýsingasmiður þess halda áfram að misþyrma móðurmálinu í heilsíðuauglýsingum í dagblöðunum (Fréttablaðið 22.07.2009) þar sem auglýst eru svo kölluð þrýstjöfnunarsvampsrúm. Ef fyrirtækið væri að auglýsa trérúm hétu þau væntanlega trésrúm í samræmi við þetta! Að þessu hefur raunar verið vikið áður í Molum.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Karl Jóhann skrifar:
23/07/2009 at 14:23 (UTC 0)
Af visir.is:
Sló Ásta fjölmörg slög í þingklukkuna og bjölluhljóðin ómuðu um þingsalinn, en þetta er ekki í fyrsta sinn sinn sem forseti hefur neyðst til að áminna þingmenn af þessu tilefni.
Blaðamaðurinn Hafsteinn Gunnar Hauksson ætti að skammast sín.
Frétt Vísis
Eygló skrifar:
23/07/2009 at 02:06 (UTC 0)
í Sjónvarpsfréttum í kvöld las fréttaþulur, sem ég reyndar hef mætur á, TVISVAR „óafturkræfanlegur“. Svo var fréttin lesin af öðrum fréttamanni. Hjá honum var líka allt „óafturkræfanlegt“ líka!!! „Óafturkræf“, ætti að vera nóg, eða hvað?