Ná sátt um jarðaför Palestínumanns, sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (26.10.2014) http://www.ruv.is/frett/na-satt-um-jardafor-palestinumanns
Orðið jarðaför var einnig notað í meginmáli fréttarinnar. Þetta var því ekki innsláttarvilla. Heldur vankunáttuvilla. Þarna hefði átt að tala um jarðarför. Færeyingar tala um jarðarferð, útför
Taktleysi og ósmekkvísi stjórnenda Hraðfréttaþáttar Ríkissjónvarpsins á föstudagskvöld (24.10.2014) kristallaðist í kirkjugarðsatriðinu sem þar var flutt. Ófyndið. Ósmekklegt. Stjórnendur Ríkisútvarpsins ættu nú að sjá sóma sinn í að jarðsetja svokallaðar Hraðfréttir í kirkjugarði misheppnaðara sjónvarpsþátta. Hann hlýtur að vera til.
Skoðanakannanir um sjónvarpsáhorf og útvarpshlustun, um það hve margir horfa/hlusta á tiltekið efni eru oft fróðlegar, en segja aðeins hálfa sögu. Einnig þarf að spyrja hvað fólki finnst um efnið. Gott, slæmt, eða sæmilegt.
Samkvæmt sáttasemjara , var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (23.10.2014). Betra hefði verið, að mati Molaskrifara að segja , að sögn sáttasemjara. Þá var talað um tíða komu skemmtiferðaskipa. betra hefði verið, – tíðar komur skemmtiferðaskipa. Í Speglinum varð ágætum fréttamanni á að segja, – fyrir ýmsar sakir, allt frá skattsvikum og ólöglegum fyrirtækjarekstri til njósna og landráðs. – Orðið landráð er fleiritöluorð. Ekki til í eintölu.
T.H. bendir á þetta og segir: Ýmislegt er nú haldið upp á! http://revive.visir.is/www/images/92322e56123e8a83e33622882523f060.jpg
Það má með sanni segja! Fyrirtæki eða vefsíða er eins árs og heldur upp á lagersölu af því tilefni !!! Þakka ábendinguna.
Það hefur áður verið sagt hér og skal áréttað að þættir Gísla Arnar Garðarssonar og hans fólks, Nautnir norðursins eru afburða gott efni. Vel útfærð hugmynd. Þessir þættir eiga eftir að fara víða. Molaskrifara þótti hinsvegar ekki mikið koma til danska sykur- og sætabrauðsþáttarins um karamellugerð ,sem sýndur var sl. fimmtudagskvöld. Eina bótin var að hann var stuttur. Svo sérsinna er Molaskrifari, að hann fékk vatn í muninn, þegar snæddur var lútfiskur í þætti Gísla Arnar!
Trendsetterinn er nýjasti tískubloggarinn, sagði á svokölluðu Smartlandi mbl.is (24.10.2014). Alltaf í fararbroddi þegar kemur að vönduðu málfari! http://www.mbl.is/smartland/frami/2014/10/24/trendsetterinn_er_nyjasti_tiskubloggari_islands/
Á sunnudagskvöld (26.10.2014) lauk vandaðri þáttaröð Ríkissjónvarps um landnám og afkomendur Íslendinga í Vesturheimi. Þessir þættir voru vel undirbúnir og vel unnir. Til sóma í hvívetna. Þökk sé Agli Helgasyni og hans góða samstarfsfólki. Ekki er þar minnstur hlutur Ragnheiðar Thorsteinsson. Molaskrifari lítur svo á að þessir þættir séu áfangi, – góður áfangi í að segja þjóðinni þessa merku sögu. Margt er nefnilega enn ósagt um sögu landnemanna, afrek þeirra og afkomendur. Það þurfum við að fá að sjá og heyra.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar