Fyrrverandi kollega skrifaði (26.10.2014): ,,Við dagleg fréttaskrif er mikil hætta á því að menn festi sig í alls kyns vondu málfari, sem síðan gengur aftur og aftur eins og illvígur draugur. Því er mikilvægt að reglulega séu fréttir skoðaðar af þar til bæru fólki, sem síðan bendir fréttamönnum á hvað betur mætti fara. Þarna á ég við málfarsráðunauta, en svo virðist sem fréttastofur hafi ekki lengur efni á slíkum lúxus. Síðast núna áðan í hádegisfréttatíma Ríkisútvarpsins (26.10.2014) talaði fréttamaður um að bjóða ætti almenningi aðgang að ferðamannastöðum gjaldfrjálst. Fer ekki mun betur á því að bjóða fólki inn á ferðamannastaði frítt? Eða bjóða almenningi frían aðgang að Gullfossi og Geysi ? Þetta gjaldfrelsi er að festa sig í sessi, svona eins og orðskrípið áhafnarmeðlimur, sem enginn virðist lengur hafa afl til að berjast gegn.” Molaskrifari þakkar gömlum vini þarfar og réttmætar ábendingar.
Hér hefur löngum verið kvartað yfir því að ekki væru fréttir í Ríkisútvarpinu frá því klukkan tólf á miðnætti til klukkan sjö að morgni og það þótt fréttamaður væri á vakt á alla nóttina. Úr þessu hefur nú verið bætt og það bera að þakka. Batnandi manni er best að lifa, stendur einhversstaðar.
Nú eru fréttir á Rás tvö klukkan eitt, tvö, fimm og sex að morgni og síðan sjöfréttir. Þetta er góður áfangi. En hversvegna ekki líka fréttir klukkan þrjú og fjögur? Þær koma vonandi senn.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (25.10.2014) var sagt að Landhelgisgæslan og norski herinn og hafi átt í þegjandi samkomulagi um … Þetta var reyndar margtuggið í seinni fréttatímum. Molaskrifara hefði þótt betra orðalag að tala um að milli Landhelgisgæslunnar og norska hersins hafi verið, hafi ríkt, þegjandi samkomulag um … Molaskrifari kannast ekki við orðalagið að eiga í samkomulagi við einhvern.
Í frétt Stöðvar tvö um könnun á afstöðu fólks til byggingar nýs Landspítala 25.10.2014) var spurt hvort fólk þætti mikilvægara að ríkið borgaði niður skuldir eða … Þannig á reyndur fréttamaður ekki að taka til orða. Hann hefði átt að spyrja hvort fólki þætti mikilvægara að …
Í Óskalögum þjóðarinnar í Ríkissjónvarpinu á laugardagskvöld sagði stjórnandi okkur að rassvasasímar væru svolítið (soldið) inn. Átti við að slíkir símar væru vinsælir. Hrátt úr ensku. Stjórnendur sjónvarpsþátta eiga vanda málfar sitt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar