«

»

Molar um málfar og miðla 1630

 

Úr frétt á mbl.is (05.12.2014): Húsið hef­ur tekið gagn­ger­um end­ur­bót­um og gistu fyrstu gest­ir Apó­tek hót­els þar síðustu nótt. Hér hefði að mati Molaskrifara farið betur á því að tala um að gagngerar eða gagngerðar endurbætur hafi verið gerðar á húsinu. Eða að húsið hafi tekið algjörum stakkaskiptum.  Ekki að það hafi tekið endurbótum.

 

Undirfyrirsögn í Garðapóstinum (04.12.2014): Eldvarnaátak LSS og slökkviliðanna var formlega opnað í Flataskóla í Garðabæ. Átak er ekki opnað. Það hefst.

 

Í síðdegisþætti á Rás eitt á föstudag (05.12.2014) sagðist umsjónarmaður ætla að spyrja Víking Heiðar Ólafsson hvernig díl hann hefði gert … (væntanlega við nýjan umboðsmann). Ekki til fyrirmyndar að taka þannig til orða.

Í sama þætti var þjóðsöngurinn leikinn í svolítið óvenjulegri útgáfu Stórsveitarinnar. Allt gott um það, en þjóðsöngurinn var ekki leikinn til enda, heldur var hljóðið dregið niður í miðju kafi til þess að koma að auglýsingum ! Auglýsingadeildin ræður miklu í dagskránni. Molaskrifari er nú svo gamaldags, að hann fellir sig ekki við að Ríkisútvarpið byrji að leika Ó, guð vors lands, en hætti í miðju kafi til að flytja auglýsingar! Ef byrjað er að flytja þjóðsönginn á að flytja hann til enda. Það er bara þannig.

 

Að minnsta kosti ein útvarpsstöð sérhæfir sig í að kynna og auglýsa, beint og óbeint, margs konar kínalífselexíra (snákaolíu, eða platlyf, sem stundum er talað um), og allskyns fæðubótarefni, svokölluð, sem eiga að gera kraftaverk til að bæta hvers kyns mein bæði andleg og líkamleg. Stundum efast maður um þær fullyrðingar, sem hafðar eru uppi um þessar vörur. Í heilsíðuauglýsingu í DV á föstudag (05.12.2014)voru auglýstar töflur sem fullyrt var að bættu skammtíma minnið. Er það rétt? Hefur það verið rannsakað? Er þetta stutt vísindarökum? Í sömu auglýsingu er auglýst efni, sem fullyrt er að auki hárvöxt. Er það rétt? Hefur það verið rannsakað? Eða er þetta skrum eins og de-tox bullið sem reið húsum flestra fjölmiðla fyrir nokkrum misserum, en heyrist nú ekki nefnt?

Neytendur eiga að geta treyst því sem fullyrt er í auglýsingum af þessu tagi.

Það glaðnaði yfir Molaskrifara, og veitti ekki af, segja sjálfsagt sumir, á miðvikudagskvöld (03.12.2014) þegar veðurfréttir komu strax í kjölfar frétta í Ríkissjónvarpinu. Hann vonaðist til að nú væri búið að færa veðurfréttir aftur á sinn gamla stað. Það reyndust falsvonir. Bein útsending frá boltaleik hófst nefnilega strax að veðurfréttum loknum. Þess vegna var sérstökum íþróttafréttatíma sleppt. Molaskrifari hefur það eftir traustum heimildum, að ákveðið hafi verið að troða sérstökum íþróttafréttatíma milli frétta og veðurfrétta til þess að auka áhorf á íþróttafréttir. Kannski hefur það tekist. Við sem heima sitjum erum varnarlaus.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>