«

»

Molar um málfar og miðla 1631

 

Ýmislegt athyglisvert kom fram í fyrsta þætti Hringborðsins í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (08.12.2014). Samtalið komst þó ekki almennilega í gang fyrr en þátturinn var um það bil hálfnaður. Of löng inngangsræða átti kannski einhvern þátt í því. Svo er það þannig að þegar tveir, eða jafnvel þrír, tala hver ofan í annan, þá heyrum við, sem heima sitjum, ekkert nema hávaða.. En þetta á eftir að slípast og í rauninni hefði þátturinn mátt vera aðeins lengri, þegar samtalið var loksins orðið samtal. Góð tilbreyting í dagskránni, en helsta gagnrýnin á þáttinn fyrir fram var að stjórnendur væru of gamlir! Það kom hreint ekki að sök. Reynsla og minni á sögulegt samhengi skiptir nefnilega máli líka, – að muna lengra til baka en til dagsins í gær eða ársins í fyrra. Fróðlegt verður að sjá næsta þátt í byrjun nýs árs.

 

Í Morgunútgáfunni í morgun (09.12.2014) var ágæt um umræða um málfar, t.d. beygingu ýmissa skyldleikaorða, móður, bróður, föður, systur, til dæmis, sem aftur og aftur sést ranglega farið með. Sömuleiðis var talað um orðtök eins og á sömu nótum og svipuðum nótum. Sífellt stjórnendafliss var samt hálfgerð feilnóta. Undarleg skilaboð sem flutt voru í lok þáttarins voru á þann veg, að ef fólk ætlaði að,,taka veikindadag” væri dagurinn í dag vel til þess fallinn. Á annan veg gat Molaskrifari ekki skilið þetta.  Var þetta bara aulafyndni?

 

Markið var skorað fyrir framan nánast enga áhorfendur. Úr íþróttafréttum Ríkissjónvarps (005.12.2014). Gaman að þessu!

 

Út er komin bók með efni hinna ágætu sjónvarpsþátta Orðbragðs.

Auglýsingar um bókin eru ansi líkar dagskrárkynningum Ríkisútvarpsins um þessa sömu þætti. Molaskrifara finnst þetta vera á mörkum þess sem eðlilegt er í auglýsingum og dagskrárgerð.

En mikið var gaman að viðtalinu við Maríu í síðasta Orðbragðsþætti (07.12.2014). Stúlkuna sem talar átta tungumál, sem svo sannarlega eru ekki öll á hvers manns færi.

 

Hvað eftir annað var fyrir helgina talað um góðan gang í gosinu í Holuhrauni. Sem sagt, eldgosið gekk mjög vel!

 

Í íþróttafréttum á laugardagskvöld (06.12.2014) var rætt við spilandi aðstoðarþjálfara. Hefur heyrst áður. Þar var líka talað um að hamra boltann í netið. Svo var það bavíaninn sem birtist á golfvelllinum. Bavíanum lét sér fátt um finnast, sagði íþróttafréttamaður. Lét ekki bavíaninn sér fátt um finnast? – Honum fannst golfið greinilega ekki mjög merkilegt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>