Þórarinn Guðnason sendi eftirfarandi (12.01.2015):,,BrúUnum yfir Eyrarsund og Stórabelti var lokað í gærkvöld…“. Hann segir: – ,,Þetta kann að hafa verið mismæli hjá þulnum, sem annars las mjög vel, – kann líka að vera að hann hafi ekki skrifað fréttina sjálfur – en ekki leiðrétti hann sig”. – Molaskrifari þakkar ábendinguna. Brúnum, hefði þetta átt að vera eins og Þórarinn bendir réttilega á.
Fyrrverandi starfsfélagi skrifaði (12.01.2015): ,,Alltaf eru menn að rugla með sögnina að veita, nú síðast í heilsíðu auglýsingu frá ríkisstjórninni. Þar veita menn fjármunum til heilbrigðismála. Hið rétta er að menn veita fjármuni til heilbrigðismála, en verja fjármunum til lausnar læknadeilunni. Svo eyða menn líka fjármunum í alls kyns vitleysu. Það er óþarfi að blanda Flóaáveitunni inn í óskyld málefni!”
Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Molalesandi skrifaði (12.01.2015) ,,Í Mogganum í dag segir að Steinullarverksmiðjan á Króknum fagni 30 ára afmæli sínu á árinu. – Þetta er ruglsetning. Verksmiðjan fagnar engu, hins vegar verður afmæli hennar fagnað. – Ótrúlega algengt að dauðum hlutum sé gefið líf, þegar talað er um einhver tímamót …” Molaskrifari þakkar bréfið. Í Morgunblaðinu á mánudag stendur undir mynd á bls. 12:,,Steinull. Verksmiðjan á Sauðárkróki tók til starfa haustið 1985 og fagnar því 30 ára afmæli á þessu ári”.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á mánudag (12.01.2015) var sagt frá eldsvoða í bíl í Kópavogi. Sagt var að fólk í bílnum hefði verið að reykja vindlinga. Það er ágætt orðalag, þótt orðið sígaretta sé fyrir löngu búið að festa sig í málinu. Svo var sagt að bíllinn hefði verið pakkaður af flugeldum. Það var ekki eins vel orðað. Átt var við að talsvert eða mikið af flugeldum hefði verið í bílnum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar