Herrafatabúð Birgis auglýsti í Ríkisútvarpinu á miðvikudag (14.01.2015): Jakkaföt, – tvö fyrir ein. Þetta las þulur athugasemdalaust. Tvö jakkaföt! Enn virðist auglýsingadeild Ríkisútvarpsins taka gagnrýnilaust við öll sem að henni er rétt. Enginn les yfir. Átt var við að tvenn jakkaföt fengjust á verði einna. Þetta var leiðrétt daginn eftir.
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (14.01.2015) sagði íþróttafréttamaður frá manni ætlaði að stíga á stokk á ráðstefnu. Í fréttinni kom fram að maðurinn ætlaði ekki að stíga á stokk og strengja heit. Hann ætlaði að segja frá afrekum sínum. Ef menn nota orðtök, verða þeir að vita hvað þau þýða. Orðið nokkuð algengt að heyra í fréttum talað um að stíga á stokk, þegar átt er við það að taka til máls, flytja ræðu eða tónlist.
Í Garðapóstinum (15.01.2015) segir í fyrirsögn: Biðlistinn telur 500 miða!!. Biðlistinn telur hvorki eitt né neitt. Hér hefði til dæmis mátt segja: 500 manns á biðlista. Í undirfyrirsögn segir: Þeir sem skráðu sig á biðlista vantar tæplega 500 miða. Mig vantar, ekki ég vantar. Þess vegna hefði hér átt að standa: Þá sem skráðu sig á biðlista vantar tæplega 500 miða. Kannski er hér ferð hræðsla við þágufallsýki? Í fréttinni,sem er um miðasölu á þorrablót, segir: … en bankinn opnaði klukkan 0900. Bankaði opnaði ekki. Hann var opnaður. Miðarnir voru seldir í bankaútibúi.
Í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu (15.01.2015) var sagt: … flutt ykkur erlendis. Verið var að ræða um fyrirtæki, sem hafði flutt starfsemi sína til útlanda. Erlendis er notað um dvöl á stað, ekki ferð eða flutning til staðar. Fyrirtækið starfar erlendis. Málfarsráðunautur ætti að ræða þetta, – og fleira – við umsjónarmenn þessa þáttar.
Mikið til er hætt að tala um ársgrundvöll, þegar verið er að miða við eitt ár eða tólf mánuði. Þessi gamli draugur skaut þó upp kollinum í morgunfréttum Ríkisútvarps á fimmtudagsmorgni(15.01.2015) Alltaf er hægt , – og betra að segja á ári, í stað ársgrundvallarins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar