«

»

Molar um málfar og miðla 1671

Sigurður Hreiðar skrifaði (07.02.2015):

,,Eiður — gaman væri ef þú vildir mola þessa ambögu, — sem dynur nú á okkur frá Forlaginu í öllum miðlum , – um eitthvað sem sé ávanabindandi. Vanabindandi hefur dugað hingað til.” Molaskrifari þakkar ábendinguna. Vonandi lesa Forlagsmenn þetta.

 

Vandvirknin var ekki allsráðandi í morgunfréttatímum Ríkisútvarpsins klukkan sjö og átta á laugardagsmorgni (07.02.2015). Sagt var frá sölu á málverki eftir listmálarann Paul Gauguin. Hann var kallaður Paul /gúgai! Réttan framburð geta fréttamenn ævinlega fundið til dæmis á Google, eða í tiltækum handbókum. Það er til nóg af framburðarorðabókum. Réttur framburður er í áttina að /gó´gen/ – . Talað var um að lokað væri á Vatnsskarð og að selja ætti Seljalandsskóla og íbúðarhús honum tengdum. Það var svolítill viðvaningsbragur á málfari í fréttum þennan morgun. Vantaði greinilega leiðsögn, yfirlestur. Ríkisútvarpið á að vanda sig.

 

Í Fréttablaðinu (09.02.2015) segir frá því erþota Icelandair lenti á Reykjavíkurflugvelli. Í fréttinni segir: ,,Vélin lenti kl. 1630 í gær og var stödd á Reykjavíkurflugvelli í rúma klukkustund áður en hún flaug aftur til Keflavíkur.” Vélin var stödd (!) á Reykjavíkurflugvelli í rúma klukkustund. Það var og. Vélin var á Reykjavíkurflugvelli í rúma klukkustund.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps þennan sama dag af rafmagnsleysi á Suðurnesjum var okkur sagt í fréttayfirliti að lendingarljós á Keflavíkurflugvelli hefðu verið úti í tvær klukkustundir. Í fréttinni var því bætt við að aðflugsbúnaður hefði líka verið úti. Ekki veit Molaskrifari betur en lendingarljós við flugbrautir séu alltaf úti, utanhúss, og sama gildi um aðflugsljós. Þessi ljós lýstu ekki, þau loguðu ekki vegna rafmagnsleysis. Í sjónvarpsfréttum var bæði sagt að ljósin hefðu verið úti og að þau hefðu verið biluð!

 

Í lok Vikulokanna á Rás eitt (07.02.2015) gleymdi umsjónarmaður að segja okkur hverjir hefðu setið þar og spjallað. Molaskrifari þóttist þekkja eina rödd, kannski tvær. Það á að vera grundvallar regla í lok umræðuþátta að segja hverjir þar töluðu saman. Svo mikil grundvallarregla, að ekki ætti að þurfa að brýna það fyrir reyndum dagskrárgerðarmönnum það. Í lok laugardagsviðtalsins í Ríkisútvarpinu sagði Egill Helgason okkur frá því við hvern hafði verið rætt.

 

Alþingismaður skrifaði á fésbók (09.02.2015) ,,Margir opinberir aðilar hafa kosið að versla innflutt fullunnið gler”. Þingmaðurinn ruglast á sögnunum að kaupa og að versla. Hann á við að margir opinberir aðilar kjósi að kaupa fullunnið, erlent gler. Of algengt er að þessu sé ruglað saman.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt, Sigurður. Þetta var þotan sem fór upp á Snæfellsnes!!! Bjarni Sigtryggsson gat þess á fésbók, að þegar hann var með umsjón Vikulokanna var föst regla að kynna þátttakendur í upphafi , í þættinum miðjum og svo í lokin. Þetta er eins og einhver sagði mig ABC í dagskrárgerð. Mikið rétt.

  2. Sigurður Karlsson skrifar:

    Ætli þessi þota sem var „stödd“ á Reykjavíkurflugvelli hafi ekki verið sú sama og ruv.is sagði að hefði flogið stóran hring „upp á Snæfellsnes“ áður en hún lenti? http://www.ruv.is/frett/vel-icelandair-lenti-i-vandraedum

    Fyrir utan að segja í lok þáttarins hverjir voru í Vikulokunum, sem ég held að sé enn siður annarra umsjónarmanna en Helga Seljan, hefur oft verið sagt frá því líka í þættinum miðjum fyrir þá sem ekki hlustuðu alveg frá byrjun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>