Þórarinn skrifaði (09.02.2015) : ,Sæll,
mig langar að nefna eftirfarandi orðalag sem fréttakona Ríkssjónvarpsins viðhafði í kvöldfréttum í kvöld 9/2, í frétt um Merkel og Obama. Þar sagði hún m.a.:
,,….takist friðarumleitanir ekki í þetta skiptið, VÍLI sambandið þó ekki FRÁ því að beita harðari refsiaðgerðum”. Ég hef heyrt að menn: víli eitthvað ekki fyrir sér, – en ekki að einhver víli ekki frá einhverju. Er þetta ekki eitthvað skrítið?” Molaskrifari þakkar Þórarni bréfið. Þetta er ekki bara skrítið, heldur rangt.
Í morgunfréttum klukkan 06 00 (09.02.2015) var sagt frá verðlaunaafhendingu á Grammyhátíðinni: ,, … var sigursælastur og hlaut fjögur verðlaun.” Það er erfitt, þetta með fleirtöluorðin. Fleiri hnökrar voru á málfari í þessum fréttatíma.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (09.02.2015) var fjallað um húsnæði Náttúruminjastofnunar og sagt að stofnuninni hefði verið sögð upp leigan. Þetta hljómaði ekki rétt í eyrum Molaskrifara. Finnst að það hefði fremur átt að vera , að Náttúruminjastofnun hefði verið sagt upp leigunni, eða að leigusamningu stofnunarinnar hefði verið sagt upp.
Það er Molaskrifara ævarandi undrunarefni hvað stjórnmálamenn lúta lágt til að komast skamma stund á sjónvarpsskjáinn. Átt er við stjórnmálamenn og Hraðfréttir, svokallaðar, í Ríkissjónvarpi, til dæmis á föstudagskvöldið var (06.02.2015) . Ef stjórnmálamenn halda að þetta sé þeim til framdráttar, þá er Molaskrifari á öndverðum meiði. Þeir eru frekar að gera lítið úr sér.
Ekki heyrði Molaskrifari betur í Morgunútgáfunni á mánudagsmorgni (09.02.2015) rétt fyrir klukkan sjö en að leikið væri lag með hinum óviðjafnanlegu Millsbræðrum, sem alltof sjaldan heyrast. Listamannanna var hinsvegar að engu getið, aðeins sagt eftir á að lagið héti. When the Sun Goes Down. .
Í Morgunútgáfunni (09.02.2015) sagði umsjónarmaður um veður: Það er búið að stytta upp. Molaskrifari finnst þetta ekki mjög vel orðað. Það er búið að rigna mikið, en nú hefur stytt upp.
Íþróttafréttamaður,sem rætt var í þessum sama þætti er vafalaust vel fær enskumaður. Hann kallaði fjögurra liða úrslit í íslenskri íþróttakeppni final four. Hversvegna sletti á hann á okkur ensku? Kona sem rætt var við um sykurfíkn í þættinum sagði: Móttakararnir döllast. Í staðinn fyrir að sletta ensku ( dull) hefði konan getað talað um að móttakararnir slævðust eða dofnuðu. Hvernig er hægt að tækla þennan vanda, spurði umsjónarmaður. Sögnin að tækla er fengin frá íþróttafréttamönnum. Þeir sem vilja vanda mál sitt forðast notkun sagnarinnar að tækla í merkingunni að vinna bug á, ráða fram úr eða leysa.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar