«

»

Molar um málfar og miðla 1733

 

Rafn skrifaði (08.06.2015): ,,Sæll Eiður – Opnun maga við keisaraskurð?

Fréttin er ekki alveg ný, en hún er úr DV (15.05.2015). Ég hefði getað skilið að læknir týndi síma í kviðarholi sjúklings eða jafnvel legi, þar sem um keisaraskurð var að ræða. Hvernig honum tókst að koma símanum í maga sjúklingsins er hins vegar ofvaxið mínum skilningi”.

Svona var fyrirsögnin:,,Farsími skilinn eftir í maga konu við keisaraskurð –

Fann titring í kviðnum og var skorin upp aftur”. Furðuskrif. Þakka ábendinguna, Rafn.

 

Æ oftar heyrist talað um að hafa gaman, – að skemmta sér. Síðast heyrði Molaskrifari þetta í fréttum Stöðvar tvö (06.06.2015). Hrátt úr ensku, – to have fun.

 

Stundum finnst Molaskrifara að verið sé að ljúga að honum í auglýsingum. Horfði um daginn á sjónvarpsauglýsingu um innflutt grænmeti. Sá ekki betur en það væri plastpakkað og hraðfryst. En í auglýsingunni var okkur sagt að það væri ferskara en ferskt! Svona glata orð merkingu sinni.

 

Allt er nú framkvæmt. Í umræðum á Alþingi á mánudag (08.06.2016) talaði þingmaður um að fundur hefði verið framkvæmdur! Fundur var haldinn.

 

Úr frétt á mbl.is um unga menn í Keflavík sem stálu smábíl í fylleríi. (08.06.2015): ,, … og óku þeir sem leið lá yfir í Garð.” Og aftur: ,, … þar sem nokkuð langt er úr Kefla­vík yfir í Garð …” Þarna hefði átt, samkvæmt málvenju að tala um að fara úr Keflavík út í Garð, ekki yfir í Garð. Úr Garðinum fara menn inn í Keflavík. Úr Keflavík fara menn út í Garð.

 

Af mbl.is is (08.06.2015): “Raf­magn á nú að vera komið á alla not­end­ur frá Skipanesi að Höfn … “ Fagnaðarefni að rafmagn skuli komið á alla notendur! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/08/vidgerdum_lokid_vid_skipanes/ Vonandi hefur engum orðið meint af.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>