«

»

Molar um málfar og miðla 1734

 

Elín Pálmadóttir blaðamaður og rithöfundur hefur verið sæmd æðstu orðu Frakklands fyrir framlag sitt í þágu Frakklands og franskrar menningar og er það að verðleikum. Rifjast nú upp, að fyrir áratugum á fundi í Blaðamannafélagi Íslands varð þeim sem þetta ritar það á að kalla Elínu og Hólmfríði Árnadóttur á Alþýðublaðinu blaðakonur. (Hefur verið nefnt áður í Molum). Þær gáfu honum heldur betur orð í eyra! Sögðust réttilega vera blaðamenn.

Í frétt Morgunblaðsins segir, að Elín hafi unnið í franska sendiráðinu í París (heyrðist og í fleiri fjölmiðlum). Í París er samkvæmt eðli máls ekkert franskt sendiráð. Þar er íslenskt sendiráð og þar starfaði Elín um hríð á sjötta áratugnum, – eins og raunar kemur fram seinna í fréttinni.

Í fréttinni segir einnig: ,,… og var orðuhafinn Elín nær orðlaus yfir þeim mikla heiðri,sem henni var sýndur”. Þar hefur þá borið nýrra við. Aldrei upplifði skrifari það á árunum, sem leiðir lágu saman í blaðamennskunni, að Elínu Pálmadóttur yrði orða vant, hvað þá að hún yrði orðlaus.  Jafnan meðal hinna fremstu í blaðamannastétt á sínum langa starfstíma. – Hjartanlega til hamingju með heiðurinn, Elín.

 

Trausti skrifaði vegna fréttar á mbl.is (09.06.2015): ,,Í frétt þessari er sagt frá manni, sem ætlar „að ganga frá Kefla­vík til Hofsós­ar“ eða „að labba á Hofsós“, en ætli ekki geti verið að maðurinn ætli að ganga til Hofsóss?”. Molaskrifari þakkar ábendinguna, en skylt er að geta þess að þetta var síðar leiðrétt á mbl.is.

 

Vertu næs! Svona auglýsir Rauði kross Íslands. Þetta er ekki íslenska. Þetta er enskusletta. Orðið næs er ekki íslenska. Það er enska skrifuð eftir framburði. Hvers vegna þarf Rauði krossinn að sletta á okkur ensku? Eiga ekki auglýsingar í útvarpi/sjónvarpi að vera á ,,lýtalausu íslensku máli”? Man ekki betur. Fer Ríkisútvarpið í auglýsingum bara eftir eigin duttlungum, en ekki settum reglum ?

 

Enn óvíst með opnanir fjallvega, sagði í fyrirsögn á bls. 8 í Morgunblaðinu á þriðjudag (09.06.2015). Molaskrifari hefði látið eintöluna duga. Hann hefði sagt: Enn óvíst með opnun fjallvega.

 

Í skjáfréttaborða á Stöð tvö sagði (09.06.2015): Nýtt verslunarrými opnar formlega á föstudag (í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli). Rýmið opnar hvorki eitt né neitt. Það verður opnað eða tekið í notkun. Vonandi verður ekki sagt að það hafi verið vígt, þegar það verður tekið í notkun! Er þetta tapaður slagur?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>