«

»

Molar um málfar og miðla 1736

Gamall vinnufélagi skrifaði (12.06.2015): Sæll félagi. „Engar framfarir hafa orðið í viðræðum AGS og Evrópusambandsins við Grikki“, stendur á vefsíðu Kjarnans. Kannast menn ekki lengur við hið ágæta orð „árangur“? Máltilfinning mín tengir framfarir ekki viðræðum manna í millum heldur eitthvað stærra. Tel mig ekki þurfa að tilgreina dæmi þar að lútandi, en held að þarna sé farið inn á nýjar (og lakari) brautir með notkun „framfara“.- Molaskrifari þakkar bréfið. Er ekki verið að þýða úr ensku þarna? – Er þetta ekki aulaþýðing á , – ,, No progress has been made …. “ Dettur það svona í hug.

 

Trausti skrifaði (13.06.2015): ,,Fyrir fáum dögum var á mbl.is sagt frá manni, sem ætlaði að ganga til Hofsósar.
Á sama miðli getur nú að líta eftirfarandi: „Mörg hundruð manns hafa safn­ast sam­an í miðborg Stokk­hólm­ar í Svíþjóð í dag …“
Ekkert lært!”. Nei, þetta er erfitt. Ekkert eftirlit. Enginn prófarkalestur.

 

K.Þ. benti á þessa frétt á visir.is (12.06.2015): http://www.visir.is/grimmilegur-hollenskur-geitungur-veldur-usla/article/2015150619711

Hann spyr: Hvað merkir sögnin að miða?

Í fréttinni segir:

,,Þetta er eins ferskt og hugsast getur, pakkað í Hollandi seint um kvöld og flutningsleiðin, frakt frá Belgíu, og beint hingað. Klárað úti, miðað frá okkur. Við höfum flutt þetta salat inn í að minnsta kosti tíu ár og fólk verið ánægt með það. Vinsælt salat alla tíð.“ – ;Molaskrifari stendur á gati.

 

Úr íþróttafréttum Ríkissjónvarps (14.06.2015): ,, … og tókst mótið afar vel til”. Mótið tókst ekki vel til. Það tókst vel. Heppnaðist vel. Vel tókst til með mótshaldið.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (11.06.2015) var ágætlega sagt frá því að kona hefði lokið sveinsprófi í múraraiðn eða múrverki. Þess verður sjálfsagt ekki langt að bíða að málfarsfemínistar lýsi yfir stríði gegn því orðalagi að kona geti lokið sveinsprófi í nokkurri grein. Oft er talað um að í sveinsprófi felist að gera sveinsstykki, vinna tiltekið, oft vandasamt verk Verður það orð ekki bannfært?

 

Hópkaup auglýsir sólapúður á netinu (15.06.2015). Skyldi það duga á alla skósóla? Auka endinguna?

 

Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins var með góða ábendingu í pistli sínum í Morgunútgáfunni í morgun (16.06.2015) þegar hann leiðrétti notkun ambögunnar á sautjánda júní. Þarna er forsetningunni á ofaukið. Þetta glymur sífellt í eyrum og er rangt.

Svo talaði umsjónarmaður þáttarins um lógó þjóðhátíðardagsins !!!

Gleðilega þjóðhátíð!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk, Siggi. Áttaði mig ekki á þessu. Auðvitað.

  2. Sigurður Oddgirsson skrifar:

    th.: „Klárað úti, miðað frá okkur“
    Þetta er í fyrsta sinn, sem ég hef séð myndun causativ-rar sagnar af nafnorði.
    Nafnorðið miði verður að „að miða“ þ.e. að líma verðmiða eða upplýsingamiða á vöruna.
    Þetta þekkist í ensku: label (merkimiði) og sögnin: „labeled by producer“ t.d.

  3. Kristján skrifar:

    Þessi málsgrein birtist í morgun á Visir.is

    Í nokkru var að snúast hjá lögreglu í nótt og í gærkvöldi. En um klukkan níu var bifreið stöðvuð á Bústaðavegi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, að aka hafandi verið sviptur ökuréttindum og rangar sakargiftir en maðurinn gaf upp rangt nafn. Bíllinn reyndist ótryggur og númer því tekin af.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>