«

»

Molar um málfar og miðla 1737

Rafn skrifaði (16.06.2015) um frétt á mbl.is: ,,Samkvæmt fyrirsögninni hér fyrir neðan hafa tveir (eða fleiri) misst útlim. Ég get séð fyrir mér, að einn missi útlimi, en ekki að fleiri missi útlim, nema Þetta hafi verið Síamstvíburar.”

Er­lent | mbl | 15.6.2015 | 12:23

Misstu út­lim eft­ir há­karla­árás.- Molaskrifari þakkar bréfið. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/06/15/misstu_utlim_eftir_hakarlaaras/

 

Í fréttum Stöðvar tvö á föstudag (12.06.2015) stóð fréttamaður við stjórnarráðshúsið við Lækjartorg og sagði: ,, Ríkisstjórnin kom saman til fundar hér í stjórnarráðinu ….” . Stjórnarráðshúsið er ekki stjórnarráðið. Stjórnarráðið er samheiti yfir öll ráðuneytin. Þetta er ekkert flókið en vefst ansi oft fyrir mönnum, – jafnvel reyndum mönnum. – Í Morgunblaðinu í dag (18.06.2015) er greint frá því í frétt á bls. 2 að búið sé að merkja stjórnarráðshúsið. Það er gott framtak og tímabært. Fleiri fréttamönnum tekst þá ef til vill að hafa heiti hússins rétt í framtíðinni. Fréttinni fylgja tvær myndir. Á myndunum eru karl og kona. Þau eru ekki nafngreind. Það hefði blaðið þó átt að gera. Vinnuregla í góðri blaðamennsku.

 

Í frétt í Morgunblaðinu (12.06.2015) var sagt að samtal verði tekið við foreldrasamfélagið. Hefði ekki verið einfaldara að segja að ræða ætti við foreldra?

Í sama blaði sama dag er fyrirsögnin: Bankar láni í sömu mynt og innkoma. Ekki finnst Molaskrifara þetta vera vel orðað eða vera fyrirsögn til fyrirmyndar.

 

Meðan Molaskrifari sat á biðstofu heilsugæslustöðvar á Suðurlandi í liðinni viku las hann gamla Viku, – frá í mars. Þar voru áhugaverðar mataruppskriftir, en skrifari hefur lengi haft lúmskt gaman af því að lesa mataruppskriftir  Í sömu uppskriftinni var tvívegis talað um feit hvítlauksrif! Þetta hefur svo sem sést áður. Á dönsku er et fed hvidlög, einn hvítlauksgeiri, eða rif, á ensku: clove (of garlic) . Það er ekkert til sem heitir feitur hvítlaukur!

 

Í fréttum (12.06.2015) talaði ráðherra um að forða afleiðingum verkfalla. Ekki vel að orði komist. Betra hefði verið til dæmis að tala um að draga úr afleiðingum verkfalla. Í sama fréttatíma var enn einu sinni talað um að draga sér fé, í stað þess að draga sér fé, – ástunda fjárdrátt. Þetta var að líkindum í tíu fréttum að kvöldi föstudags, en ekki gat Molaskrifari sannreynt það því fréttatíminn er ekki aðgengilegur í vef Ríkisútvarpsins.

 

Æ algegngara er, og hefur oft verið nefnt hér, að heyra talað um að hafa gaman, í merkingunni að skemmta sér. Þetta orðalag var til dæmis notað í fréttum Ríkissjónvarps sl. laugardag (13.06.2015) Í sama fréttatíma var Thorbjörn Jagland kynntur til sögu sem fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs. Hefði ekki verið eðlilegra að kynna hann sem fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, þótt hann hafi vissulega einnig gegnt embætti utanríkisráðherra?

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (14.06.2015) Var sagt frá líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur; árás á mann, sem lá liggjandi. Það var og.

 

Oftar en einu sinni að undanförnu hefur heyrst talað um sólskinsveður í fréttum. Dugar ekki að tala um sólskin?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Mundi frekar segja stórt hvitlauksrif en digurt. Stærðin skiptir meira máli en sverleikinn þegar að matreiðslu kemur. Sverleikinn er oftast svipaður en stærðin getur verið talsvert misjöfn.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Nú, við erum vonandi menn til að vera ósammála um málefni. En hvernig fyndist þér þá digurt hvítlauksrif?

  3. Eiður skrifar:

    Algjörlega ósammála þér þér Þorvaldur um samamburð á hvítlauksrifi og blýantsstriki. Þetta með hvítlauksrifið er aulaþýðing, – meinloka.

  4. Eiður skrifar:

    Algjörlega ósammála þér þér Þorvaldur um samamburð á hvítlauksrifi og blýantsstriki. Þetta með hvítlauksrifið er aulaþýðing, – meinloka.

  5. Þorvaldur S skrifar:

    Sé illt að tala um feitt hvítlauksrif gegnir sama máli um feitt blýantsstrik. Var þó slík málnotkun algeng í mínu ungdæmi og þótti góð. Má sömuleiðis í því sambandi benda á fyrirbærið feitletrun sem mun algeng allt til okkar daga. Rennur þó ekkert lýsi af leturgerðum.
    Og væri tekið undir rök Rafns fremst í pistlinum væri orðalagið: Nonni og Siggi hristu höfuðin, gott og gilt. Hins vegar felst í því að hvor þeirra hafi amk. tvö höfuð og hrist bæði. Mun slíkt óalgengt. Því er ég með öllu sammála mínum gamla kunningja, Benjamín, í þessu máli. Og í því framhaldi kemur orðalag sem fer í taugarnar á mér en það er þegar sagt er að svo og svo mörg hundruð manna hafi misst heimili sín í náttúruhamförum. Slíkt orðalag gefur til kynna að hvert fórnarlambanna hafi átt fleiri en eitt heimili og misst bæði eða öll. Mun þó sjaldnast um slíkt að ræða.

  6. Benjamín Bjartmarsson skrifar:

    Hafi tveir menn misst einn útlim hvor er rétt að segja „tveir misstu útlim“. Ef sagt hefði verið „tveir menn misstu útlimi“ verður skilja það svo að hvor þeirra hafi misst fleiri en einn útlim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>