Úr Vefmogga (02.10.2009) : .. stærstu einstöku mannvirkjaframkvæmd Íslandssögunnar er nú lokið eftir sex ára framkvæmdir. Þessi setning hlýtur að teljast með helstu gullkornum Moggans. Mannvirkjaframkvæmd!
Meira úr Vefmogga (03.10.2009): Fram kemur á vef BBC að bilunin hafi komið upp kl. 8 að staðartíma og ollið töfum víða á Bretlandseyjum, Sögnin að velda veldur mörgum
skriffinnum erfiðleikum.Þetta hefði mátt orða þannig að bilunin hafið valdið töfum, eða bilun kom upp sem olli töfum. Þeir sem skrifa í blöð ættu að hafa tök á grundvallareglum móðurmálsins..
Ólafur vakti í athugasemdum við Mola athygli á makalausri frétt úr Vefvísi um jarðskjálftaflóðbylgjuna sem olli miklu manntjóni á Kyrrahafseyjum. Í frétt Vefvísis var talað um flóðbylgju við Tsunami. Tsunami er alþjóðlegt heiti á flóðbylgjum af völdum jarðskjálfta á hafsbotni, að minnsta kosti veit Molahöfundur ekki betur. Þetta er svona rétt eins og þegar Morgunblaðið fjallaði um borgina Aboriginal í Ástralíu !
Sífellt er ruglað saman Evrópuráðinu og Evrópusambandinu, ESB. Það er ósköp hallærislegt að lesa í bloggfærslu að íslenskur þingmaður segist vera að fara á Evrópuþingið, en er að fara á Evrópuráðsþingið. Íslendingar eiga enga aðild að Evrópuþinginu. Það eiga bara þau lönd sem eru í ESB. Vonandi rambaði þingmaðurinn á rétt þing.
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eygló skrifar:
04/10/2009 at 02:41 (UTC 1)
… og framkvæmdirnar á framkvæmdunum stóðu í 6 ár
Jóhann Zoega skrifar:
03/10/2009 at 23:01 (UTC 1)
Þessi flóðbylgjufrétt minnir á fréttir af tveimur, títt nefndum, hershöfðingjum sem börðust sinn hvoru megin víglínunnar í síðustu heimstyrjöld. Í Þýskalandi var það Stab hershöfðingi en hjá bandamönnum Staff hershöfðingi. Þetta var vitlaus þýðing á herforingjaráðinu sem var generalstab í Þýskalandi en generalstaff hjá Bretum. Svona vitleysur kallaði Valtýr Moggaritstjóri fjólur. Hann hlaut af því viðurnefnið Fólupabbi. Þeir eru nokkrir fjólupabbarnir núna.
Jóhann Zoega
Norðfirði.
Steini Briem skrifar:
03/10/2009 at 22:23 (UTC 1)
Starfsmenn RÚV þurfa frið frá almenningi
Sveinbjörg Guðmarsdóttir skrifar:
03/10/2009 at 22:23 (UTC 1)
Á mínu heimili er mogginn í áskrift, bæði á blaði og neti. Sem áhugamanneskja um íslenskt mál fer oft hrollur um mig þegar ég les fréttir, sérstaklega. Það vellur úr mörgu og þingað um margt!
Ég fór á bókamarkað í dag og keypti bókina „lykil orðin“ eftir Leif Hauksson. Þar eru skýringar á helstu orðum og hugtökum úr fjölmiðlum og umræðu líðandi stundar…..mæli með þessari bók fyrir leikmenn
Jóhanna Geirsdóttir skrifar:
03/10/2009 at 21:54 (UTC 1)
Stórum jarðskjálftum á hafsbotni geta fylgt skjálftaflóðbylgjur sem kallast „tsunami“ á ýmsum erlendum málum. Þetta fyrirbæri eru öldur sem fara með 500-1000 km hraða á klukkustund um úthafið. Þær eru lágar á rúmsjó en rísa þegar þær koma á grunnsævi og geta verið margir metrar á hæð þegar þær skella á land. Alþjóðaorðið tsunami er japanskt að uppruna og merkir hafnarbylgja á frummálinu.
Vísindavefurinn 29.12.2004. http://visindavefur.is/?id=4687.