«

»

Molar um málfar og miðla 1891

 

SAMSLÁTTUR

Það var ágæt áminning og upprifjun í Máskotinu á Rás tvö á þriðjudag (16.02.2016), þegar málfarsráðunautur ræddi muninn á  þegar hér var komið sögu, þá , eða á þeirri stundu og því að koma við sögu, – í merkingunni að eiga aðild að eða taka þátt í. Þetta hefur verið nefnt í Molum og var sjálfsagt nefnt í Málskotinu vegna þess að nýlega heyrðist samsláttur þessara orðtaka í Ríkisútvarpinu, þegar sagt var: Þegar hér var komið við sögu. Það orðalag er út í hött. Orðinu við er þarna ofaukið. Það þarf greinilega að halda áfram að hamra á þessu.

 

USLI OG FLEIRA

Í fréttum Ríkissjónvarps (16.02.2016) var kynnt efni í Kastljósi. Þar var talað um myndband sem hefði valdið miklum usla vestanhafs. Usli, er tjón eða skaði. Átt var við að myndbandið hefði vakið mikla athygli.

Í fréttum Stöðvar tvö (15.02.2016) var talað um fjölda ferðamanna,sem hefðu farið í gegnum Keflavíkurflugvöll. Í fréttum Ríkissjónvarps var réttilega talað um ferðamenn,sem hefðu farið um Keflavíkurflugvöll. Í fréttum sama miðils var kvöldið eftir sagt: ,,… þegar Útlendingastofnun var afhent tæplega fimm þúsund undirskriftir með beiðni um að mál fjölskyldunnar fengi efnislega meðferð”. Þegar Útlendingastofnun voru afhentar tæplega fimm þúsund undirskriftir, hefði þetta átt að vera.

 

MYNDIR ÚR SAFNI

Það gerist of oft í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna, að okkur eru sýndar gamlar fréttamyndir og látið eins og þær séu nýjar. Mest áberandi er þetta í þingfréttum. Fyrir kemur að það bregður fyrir fólki, sem á ekki lengur sæti á þingi, er ekki á lífi, eða ráðherrum eða þingmönnum, sem vitað er að eru ekki á landinu. Slíkum myndum á ævinlega að fylgja skjáborði með áletruninni Myndir úr safni. Á því er misbrestur. Það eru óvönduð vinnubrögð að láta eins og gamlar myndir séu nýjar.

 

 

 

 

SUNDHÖLLIN LOKAR

Á fréttaborða með fréttum  Stöðvar tvö (18.02.2016) stóð: Sundhöllin lokar í tvo mánuði í sumar. Betra hefði verið: Sundhöllin verður lokuð í tvo mánuði í sumar.

 

TÍMINN Á HLAUPUM

Bíð eftir að heyra til þáttarstjórnanda, sem segir ekki undir lokin: ,, Tíminn er alveg að hlaupa frá okkur, en …” Svo er komið með spurningu ,sem svara þarf í löngu máli.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>