«

»

Molar um málfar og miðla 1892

METNAÐARLEYSIÐ

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (18.02.2016):

Sæll,

Eftirfarandi frétt er að finna á dv.is þann 18.febrúar 2016. Ótrúlegt en þó satt að einhver sem kallar sig blaðamann fái laun fyrir svona samsetningu. Staglstíllinn er algjör, tvisvar í örstuttri frétt er sagt að maðurinn hafi „kynnt kaffikönnu fyrir heiminum“. Gæti ekki verið að maðurinn hafi hannað þessa mokkakönnu? Svo var honum „fylgt til hinstu hvílu“, líklega hefur hann gengið fremstur og aðrir fylgt með. Loks er aska mannsins „varðveitt“ en ekki grafin í heimagrafreit.

 

Hinn ítalski Renato Bialetti, maðurinn sem kynnti hina frægu mokkakönnu fyrir heiminum, er látinn 93 ára að aldri. Honum var fylgt til hinstu hvílu á eftirminnilegan hátt í síðustu viku. 

 

Til að verða við óskum aðstandenda hans var lík Renato brunnið. Ösku hans var þvínæst komið fyrir í dufthylki en lögun þess svipaði til hinnar frægu könnu sem Bialetti kynnti fyrir heiminum á sínum tíma.

 

Mokkakannan kom fyrst fram á sjónarsviðið á sjötta áratugnum. Hún er nú staðalbúnaður á mörgum heimilum enda fátt sem gefur eldhúsinu jafn heimilislegan blæ og mokkakanna á eldavélarhellu. Aska Renato er nú varðveitt á grafreit fjölskyldu hans í Omegna á Ítalíu.

 Kærar þakkir fyrir þetta, Sigurður. dv.is slær ný met á hverjum degi. Metnaðarleysið ræður ríkjum.

 

OPNUN

Kjörstaðir opnuðu, var sagt í tíufréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (20.02.2016). Verið var að segja frá forkosningum í Nevadaríki í Bandaríkjunum. Molaskrifari var að vona, að við værum laus við þetta orðalag úr útvarpsfréttum. Svo er því miður ekki. Kjörstaðir voru opnaðir. Kjörstaðir opnuðu ekki.

 

 

 

 

MÉR LANGAR ….

Ekki veit Molaskrifari hve oft hann hefur heyrt þingmenn stíga í ræðustól á Alþingi, ávarpa forseta og segja svo: ,,Mér langar að spyrja hæstvirtan ráðherra …” Sjálfsagt ekki einn um að hafa heyrt þetta.

 

ENN EITT DÆMIÐ

Af visir.is (20.02.1206): ,,Talið er að um helmingur þeirra bíla sem um ræðir megi finna í Svíþjóð en Volvo segir að eigendur þeirra bíla sem um ræðir munu geta látið lagað gallann sér að kostnaðarlausu.”

Enn eitt dæmið um vankunnáttu í notkun móðurmálsins. Hér ætti að standa: Talið er að um helming þeirra bíla .. megi finna í Svíþjóð, – eða: talið er að um helmingur þeirra bíla … sé í Svíþjóð. http://www.visir.is/volvo-endurkallar-59.000-bila/article/2016160229916

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>