«

»

Molar um málfar og miðla1894

UM TALMÁL , HIKORÐ OG FLEIRA

Jón B. Guðlaugsson sendi Molum eftirfarandi bréf: ,, Heill og sæll, Eiður, og þakka þér móðurmálsvarðstöðuna.

Mér leika landmunir á að vita hvort þú deilir áhyggjum mínum af þróun íslensks talmáls. Þykir mér svo komið að hátíð megi telja ef einhver viðmælandi / umsjónarmaður/ fréttamaður kemur út úr sér óbjagaðri setningu frá upphafi til enda. Gildir einu hvort um er að véla lærða eða leika, þingmenn, ráðherra, vísindamenn – eða jafnvel þaulreynda starfsmenn fjölmiðla. Útvarpsmenn til margra áratuga virðast telja það sér til tekna að hefja yrðingar sínar án þess að hafa minnstu hugmynd um hvernig þeir ætla að ljúka þeim – og notast mikið við endurtekningu meðan þeir hugsa hvað eigi að koma næst:

….jafnvel….jafnvel…..“ – „… á….á…..á…“ – „…í…í…í…“

eða aðeins „…öööö…“

Og hvar væru slíkir reynsluboltar staddir ef ekki væri smáorðið „….svona….“?

Af öðrum bætiflákum málhaltra orðhikenda má nefna:

náttúrulega – bara – sko – hérna – ég meina – eða þannig – ha – nú – eða svoleiðis – svoldið svona – „nebblega“ – í rauninni – sem sagt – einhvern veginn – svona –

…og gleymum ekki „Nákvæmlega!“ Né hinu sígilda „Allavegana„.

Náskyldar þessum eyrnaraunum eru hvimleiðar áherslur á íslenskt talmál – sem virðast einkum til þess fallnar að gera tal viðkomandi einstaklinga „töff“ og „kúl“! Sumir lista- og fjölmiðlamenn telja það móðurmálsfegrun að bera það fram með amerískum áherslum og framburðareinkennum; kúreka-hiki og seimdraga. Og svo eru þeir sem eru svo fljót- og linmæltir að allt tal þeirra þyrfti að flytja með neðanmálstexta! Jafnvel lærðir leikarar gera sig seka um slíkt þrugl; sleppa jafnvel endingum, kveða ekki að texta sínum, hirða ekki um skýr skil á milli orða og tala svo hratt að eyru meðaljónsins nema ekki merkinguna.

Eða eru eyru mín orðin svona sljó?

Stígðu heill á storð!

Jón B. Guðlaugsson”

Molaskrifari þakkar bréfið. Hörð gagnrýni, en vaxandi notkun allskyns hikorða í ljósvakamiðlunum er greinileg þróun og hreint ekki af hinu góða.
EIN STÖÐ

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (22.02.2016): ,,Slökkviliðið var kallað út um tíu leytið í morgun til að slökkva eld sem logaði í sendiferðabíl …. Ein stöð var send á staðinn, samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.” Ein stöð send á staðinn ??? Hún hefur kannski verið send með sendiferðabíl, eða hvað ?

http://www.ruv.is/frett/sendibill-brann-i-kopavogi- Þetta hefur svo sem sést áður.

 

SCANDINAVIAN STAR

Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (22.02.2016) var fjallað um eldsvoðann, sem varð af mannavöldum í ferjunni Scandinavian Star fyrir 26 árum. Þar létu 159 manns lífið. Nú er fullyr,t að þrír skipverjar hafi kveikt í á þremur stöðum um borð. Í fréttunum var sagt að brennuvargarnir hefðu hindrað útgönguleiðir. Það er ekki vel að orði komist. Þeir lokuðu útgönguleiðum. Þetta var og er skelfilegt mál.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Kristján skrifar:

    Ég tek undir með Jóni B.Guðlaugssyni. Þegar ég las orðin,hér að neðan, komu upp í hugann tveir, annars ágætir fréttamenn. Þetta eru Helgi Seljan á RÚV og Gissur á Bylgjunni. Helgi notar orðin „kannski“ og „sko“ ótæpilega og Gissur tönnlast á „sko“ og „hérna“.
    Helgi á það til að tilkynna viðmælanda áður en hann spyr: „Kannski ég spyrji þig fyrst“, og svo spyr hann. Algjör óþarfi.

    Af öðrum bætiflákum málhaltra orðhikenda má nefna:
    náttúrulega – bara – sko – hérna – ég meina – eða þannig – ha – nú – eða svoleiðis – svoldið svona – „nebblega“ – í rauninni – sem sagt – einhvern veginn – svona –

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>