«

»

Molar um málfar og miðla 1895

KONUR MENTORA KONUR

Í morgunþætti Rásar tvö (23.02.2016) var kynntur fyrirhugaður fundur eins og oft er gert , og oft er góð ástæða til. Konan, sem rætt var við, talaði oftar en einu sinni um konur, sem væru að mentora konur. Átti líklega við að konur væru að leiðbeina konum, aðstoða konur. Molaskrifari er ekki viss um að allir hlustendur hafi skilið hvað þarna var átt við. Þegar svona gerist ,er gott að spyrill hvái, eða spyrji hvað átt sé við. Ekki ganga út frá því að allir hlustendur skilji slettur úr erlendum málum.

 

ENN UM AÐ OPNA

Í Molum 1892 var nefnt að í fréttum hefði verið notað orðalagið að kjörstaðir opnuðu um það að kjörstaðir hefður verið opnaðir. Molaskrifari hafði vonað að tekist hefði að útrýma þessu orðalagi úr fréttum Ríkisútvarps. Svo er aldeilis ekki. Þetta gekk aftur í morgunfréttum Ríkisútvarps (23.02.2016) og ef til vill var þar sami fréttaskrifari að verki. Nú var villan eiginlega tvöföld. Verið var að fjalla um alræmdar fangabúðir Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu. Talað var um að fangabúðirnar hefðu opnað. Á vef Ríkisútvarpsins var þetta orðað svona: ,,Alls hafa 780 verið í haldi í búðunum frá því þær opnuðu í ársbyrjun 2002, en nú er 91 fangi þar inni.”. Ef fangabúðir opna, ganga fangarnir sennilega út.Á öðrum stað í fréttinni var reyndar talað um að búðirnar hefðu verið teknar í notkun. http://www.ruv.is/frett/lidur-ad-lokun-guantanamo

Það er ekki rökrétt hugsun og líka röng málnotkun að tala um að fangabúðir opni.

 

DÓPAÐUR BÍLL

Þorvaldur skrifaði (24.02.2016):

,,Sæll Eiður.

Í morgun las ég í vefmogga, að löggan á Suðurnesjun hefði haft afskipti af ökumanni á bíl sem var undir áhrifum fíkniefna. Hvernig á maður að varast það, þegar maður fer út að aka ef bíldruslan er draugfull eða uppdópuð? Enn eitt dæmið um takmarkaða máltilfinningu.” – Molaskrifari fann þessa frétt ekki á mbl.is, en hana er hinsvegar á finna á vefnum frettirnar.is, en þar segir:,, Lögreglan á Suðurnesjum handtók um síðustu helgi mann undir stýri bifreiðar sem var undir áhrifum margskonar fíkniefna.”. Þakka ábendinguna, Þorvaldur.

http://frettirnar.is/dopadur-fikniefnasali-handtekinn/

 

UM BLÓTSYRÐI

Skemmtileg umræða var í Málskoti á Rás tvö á þriðjudagsmorgni (23.02.2016) um blótsyrði og veigrunarorð, svokölluð. Orð sem notuð er í stað blótsyrða. Tilefnið var blótsyrði í beinni útsendingu í Söngvakeppni í sjónvarpi á laugarkvöld (23.02.2016). Molaskrifari naut þess að horfa ekki á þann dagskrárlið, en það er vel þess virði að hlusta á umræðurnar í Málskoti. Sjá: 01:18:20 eða þar um bil : http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/morgunutvarpid/20160223

En eftir að hafa séð þau grófu blótsyrði á prenti , sem valdið hafa uppnámi hjá mörgum , getur Molaskrifari ekki sagt a annað en það ,að svona sóðalegt orðbragð í beinni útsendingu væri brottrekstrarsök á alvöru sjónvarpsstöð- , – sjónvarpsstöð, sem væri vönd að virðingu sinni  Sennilega hafa tugir þúsunda barna horft á þetta. Var Ríkissjónvarpið að segja börnum að það væri allt í lagi að segja fucking og shit? Aldeilis með ólíkindum. Hefur einhver beðist afsökunar? Kannski. En það hefur þá farið fram hjá mér.

 

SÖGUR FRÁ FÓLKI

,,Spegillinn leitaði eftir sögum frá fólki, sem …” var sagt í Spegli Ríkisútvarpsins (23.02.2016). Ef Molaskrifari hefði verið á vaktinni á og lesið yfir handrit, hefði hann leiðrétt þetta og skrifað: ,, Spegillinn leitaði eftir upplýsingum frá fólki, sem ..” . Þannig vinnubrögð þykja víst ákaflega gamaldags nú um stundir.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>