«

»

Molar um matreiðsluþátt

  Matreiðsluþáttur Jóhönnu Vigdísar í kvöld (08.10.2009) var ágæt tilbreyting. í dagskránni,- yfirlætislaus og einfaldur að allri gerð. Dæmi um gott og ódýrt dagskrárefni. Jóhanna Vigdís skilaði sínu prýðilega.

 

Sem áhugamaður um eldamennsku vill Molaskrifari þó gera nokkrar athugasemdir,- vel meintar.

 

Hversvegna nota ýsu ? Ýsan er alls ekki besti matfiskurinn. Í gamla daga var það þó þannig í Reykjavík ef ekki var til ýsa í fiskbúðinni (þá voru nefnilega sérstakar fiskbúðir), sögðu reykvíkskar húsmæður: Hvað er þetta, er ekki til neinn fiskur ? Jóhanna Vigdís  sagði, að jafnvel mætti nota þorsk. Þorskur er besti matfiskur sem völ er á. Það er fátt sem jafnast á við rétt eldað þykkt hnakkastykki úr þorski.Nógu lítið eldað til að vera ekki hrátt en samt ekki fulleldað fyrr en á diskinum. Ýsan er hrææta. Þorskurinn étur rækjur,loðnu og seiði.Lifir á lostæti. Ég tek þorsk, steinbít, löngu, blálöngu, keilu og karfa , rauðsprettu og smálúðu fram yfir ýsuna. Hún kemur síðust í röðinni. Enda losnaði hún öll í sundur á pönnunni, þegar Jóhanna Vigdís var að elda hana. Annars efast ég ekki um að þetta hafi allt bragðast vel. Besta leiðin til að borða ýsu hefur mér eiginlega fundist að skera hana í þunnar sneiðar og  láta hana liggja hráa í hreinum sítrónusafa í ísskáp í sólarhring eða tvo.

 

 Gömul saga, sem  kona úr Garðinum sagði mér. Hún var sem krakki send niður í Rafnkelsstaðavör, Kópu, innstu vör í Garðinum,  til að kaupa í soðið, þegar afi minn, Guðjón Björnsson í Réttarholti ,var að koma að. Þetta hefur líklega verið á árunum 1945 til 1950. Afi minn spurði: Vill hún mamma þín ýsu eða vill hún fisk ? Með fiski átti hann auðvitað við þorsk. Þetta þótti mér skemmtileg saga.

 

 Annað nefni ég. Aldrei nota ég tómatsósu í marineringu eða til matargerðar. Til þess er hún allt of sæt og skemmir bragð. Nota ósætt tómatþykkni.  Bestu marineringarnar verða ævinlega til úr því sem af tilviljun er til í ísskápnum í þeim hlutföllum sem ímyndunaraflið blæs manni í brjóst. Undirstöðuefni hjá mér eru  góð ólífuolía og hlynsíróp.

 

Svo tek ég undir með Jóhönnu Vigdísi, – aldrei að henda afgöngum. Það lærði ég í æsku og það iðka ég enn. Ef hugmyndaflugið er virkt,  gefa afgangar óteljandi möguleika. Gott mál á krepputímum. Hlakka til að sjá næsta þátt. Legg til að Jóhanna sýni okkur hvernig hún eldar hrefnukjöt.

 

PS   Á upphafsárum sjónvarpsins gerði Molaskrifari þátt um sláturgerð. Hann er líklega týndur og verður því ekki (tröllum) sýndur. Hann var tekinn upp í skóla,sem mig minnir að þá hafi heitið Húsmæðrakennaraskóli Íslands og það var Margrét Kristinsdóttir skólastjóri,sem stjórnaði sláturgerðinni. Seinna gerðum við Margrét nokkra matreiðsluþætti þar sem hún eldaði í sjónvarpssal, Molaskrifari stjórnaði upptöku og snæddi  svo gómsætan afraksturinn með samstarfsmönnum að upptöku lokinni.Þá var veisla. En þessir þættir eru líklega allir á öskuhaugum sjónvarpsins. Það væri reyndar gaman að sjá þætti um gamlan „mömmumat“ , ódýra , einfalda og holla rétti. Að safna slíkum uppskriftum væri verðugt innlegg í menningarsöguna.

  

15 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Steini Briem skrifar:

    Halldór Laxness fer um víðan völl í skáldskap sínum. Sagt hefur verið að hann sveiflist frá kaþólsku til sósíalískrar róttækni, frá Lenín til Laotse, frá breiðum epískum skáldsögum til absúrd leikrita, frá súrrealískum ljóðum til viðkvæmra essay-rómana um bernskuna. Hann var lengi mjög umdeildur höfundur, ekki síst vegna pólitískra skoðana hans. Menn fylgdu honum eða ekki, létu sig hann varða, engum stóð á sama um hann. Eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin 1955 má þó segja að hann hafi verið tekinn í sátt.

    Halldór Laxness

    Halldór Laxness lést 8. febrúar 1998, þá orðinn 95 ára. Mesta skáld þjóðarinnar var fallið frá en segja má að hann lifi áfram í gegnum verk sín. Í Morgunblaðinu birtist grein eftir Matthías Johannessen skáld þar sem hann sagði: Þann dag sem Íslendingar gleyma ritsnilld Halldórs Kiljans Laxness gegna þeir ekki lengur hlutverki sínu sem þjóð.

    Halldór Laxness – Wikipedia

    Halldór Laxness og Matthías Johannessen saman á Morgunblaðinu

  2. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Það var líklega árið 1997 sem  ég sat málþing rithöfunda í Noregi  þar sem fjjallað var um Knut Hamsun.  Margir ungir  rithöfundar  tóku  þar til máls og   sögðu að  nú væru  svo langur tími liðinn  að Norðmenmn ættu að  fyrirgefa Hamsun daður hans við  nasista. Hann væri jöfur norskra  bókmennta og  því ætti að  halda á lofti  en láta hitt liggja í láginni.

    Þá kvaddi sér  hljóðs  rígfullorðin konma og var mikið niðri  fyrir. Hún sagði efnislega: Þið  eruð  svo ung  að þið munið ekki þessa  tíma, flest ykkar voru ekki einu sinni í heiminn kominn þá. Það sem Knut Hamsun gerði verður aldrei hægt að  fyrirgefa.  Það sló þögn á viðstadda  því  henni var heitt í hamsi. Þetta var norska  skáldkonan Ebba  Haslund. Hún lést  10. júlí á  þessi  ári og var þá  níutíu og  eins árs. Þessi  atburður líður mér ekki úr minni.

  3. Haukur Kristinsson skrifar:

    Um Knut Hamsun í Wikipedia má lesa eftirfarandi; The Danish author Thorkild Hansen investigated the trial and wrote the book The Hamsun Trial (1978), which created a storm in Norway. Among other things Hansen stated: „If you want to meet idiots, go to Norway“, as he felt that such treatment of an old man was outrageous. Another author who criticized the treatment of Hamsun was Jens Bjørneboe, who said „Other Norwegian writers are only world-famous in Norway, but Hamsun is so the world over.“

  4. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Er reyndar nýbúinn að lesa ævisögu Þorvaldar,sem Gylfi Gröndal skrifaði fyrir allmörgum árum. Einstakur ferill. Hann sagði mér einu sinni skemmtilega sögu af því  er hann gerði athugasemd við að ekki skyldi vera  málverk af Knut Hamsun á veitingastaðnum Blom  við Karls Jóhannsgötu í Osló  en þar hanga uppi málverk af  fremstu rithöfundum  Noregs.

  5. Steini Briem skrifar:

    Afi minn spurði: Vill hún mamma þín ýsu eða vill hún fisk ?

    „Athafnamaðurinn Þorvaldur Guðmundsson, sem oftast var kenndur við Síld og fisk, fæddist 9. desember 1911. Undirbúningstímabil Þorvaldar var í herbúðum SÍF frá árinu 1937 til ársins 1944 en tvö síðustu árin þar var hann  forstöðumaður niðursuðuverksmiðjunnar.

    Þá stofnaði hann eigið fyrirtæki, Síld og fisk. Upphaflega hugmyndin var að fyrirtækið myndi einbeita sér að sölu og framleiðslu á síldar- og fiskréttum. Reyndin var hins vegar að sú hugmynd var tímaskekkja og fljótlega fór reksturinn að snúast nær eingöngu um kjötvörur.“

    Þorvaldur Guðmundsson í Síld og fiski

    Trúlega þjóðsaga: Þorvaldur í Síld og fiski bað mann nokkurn um að útbúa fyrir sig skilti með nafni fyrirtækisins en þegar skiltið var tilbúið segir Þorvaldur um skiltið: „Það er of langt á milli Síld og og og og og fiskur.“

  6. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Þakka  athugasemdirnar. Leiðréttingin á  goðsögninni  um að ýsan sé   hrææta er komin til skila , –  rækilega. Takk fyrir það !  Langt  síðan ég heyrði þetta fyrst , – man reyndar ekki lengur hvar.

  7. Haukur Kristinsson skrifar:

    That‘s the point. Þetta er einmitt málið, eins og Ragnheiður Arna segir; ormurinn. Þegar ég var strákur á Húsavík borðuðum við þrisvar í viku fisk, en mjög sjaldan þorsk. Við krakkarnir fundum alltaf, sko alltaf, hringorma í fisknum og þar með var matarlystin farin. Í dag veit ég að þorskurinn er betri fiskur en ýsan, annars geri ég ekki stóran mun á þeim. Hvort tveggja lostæti.  

  8. Steini Briem skrifar:

    Anna R. Legg til að Jóhanna sýni okkur hvernig hún eldar hrefnukjöt.

    Er ýsan hrææta? Svarið við þessari spurningu er nei.“

    Vísindavefurinn: Er ýsan hrææta?

    Ástæðan fyrir því að Mörlandinn hefur étið mun meira af ýsu en þorski er trúlega sú að saltaður þorskur var hér aðalútflutningsvaran. Menn hafi því vanist á að éta hér ýsu en ekki þorsk. Ýsan var enn um 90% af þeim fiski sem seldur var í fiskbúðum hér fyrir tveimur áratugum, enda þótt þar hafi verið hægt að kaupa fleiri fisktegundir en ýsu og þorsk.

    „Danskir kaupmenn hófu söltun á fiski í tunnur hér á landi á 15. öld og þurrkun saltfisks litlu síðar. Á seinni hluta 18. aldar beitti Skúli Magnússon landfógeti sér fyrir því að Íslendingar hæfu saltfiskverkun. Uppgangstímar gengu í garð og mátti fljótlega sjá útbreiddan saltfisk á hverri klöpp.“

    Pottréttur með saltfiski og baunum

    Hæsta saltfiskverðið hefur fengist á Spáni, einkum í Katalóníu, en þar er Barcelona höfuðstaður. Hér var algjört áfengisbann frá árinu 1915 en Spánverjar hótuðu að tvöfalda toll á íslenskum saltfiski ef við flyttum ekki aftur inn Spánarvín og því var banni við sölu á þeim hér aflétt árið 1922.

    Á öðrum og þriðja áratug þessarar aldar var saltfiskur helsta útflutningsvara Íslendinga ásamt saltsíld. Hraðfrystiiðnaður hafði ekki rutt sér til rúms og gerði það raunar ekki fyrr en á fjórða og fimmta áratugnum. Fjárhagur ríkisins var þess vegna mjög háður því að kleift reyndist að selja saltfisk með góðum kjörum.

    Veturinn 1921 voru lausir viðskiptasamningar við Spánverja en á Spáni hafði um langan aldur verið mikilvægur markaður fyrir íslenskan saltfisk. En þegar ganga átti frá nýjum samningi kom í ljós að Spánverjar myndu tvöfalda innflutningstolla á íslenskan fisk nema Íslendingar breyttu löggjöf samþykktri af Alþingi, afnæmu aðflutningsbann á áfengi.

    Spánarvínin og áfengismálastefnan

    Kaþólskir menn graðga í sig saltfiski á föstunni, því þá snæða þeir ekki ket. Og síðustu dagana fyrir Lönguföstu, sem hófst hér á Öskudag, er víða haldin kjötkveðjuhátíð, carnival, samanber carnis á latínu og chili con carne.

    Bannárin – Wikipedia

  9. Ragnheiður Arna Magnúsdóttir skrifar:

    Ég held að þetta með Ýsuna og Þorskinn þá er stór hluti landsmanna sem borðar ekki Þorsk (þar á meðal ég) útaf ormunum……

    Ég til dæmis vann í frystihúsi þegar ég var unglingur og gerði ekkert annað en að plokka ógrynni af hringormum úr stundum einu pínulitlu þorsks flaki……  Náttúrulega algjör vibbi!

    Ýsa var það heillin!

  10. Anna R skrifar:

    Og talandi um hvalkjöt (sem fyrrnefndur Steini B. er af einhverjum átæðum að reyna að lauma inn í umræðuna) þá halda frændur vorir Norðmenn uppi mögnuðum áróðri fyrir hvalbiff-áti. Hér er ein ágæt uppskriftasíða:

    http://www.hvalbiff.no/hovedside.asp?fldr=1&id=0

  11. Anna R skrifar:

    Ég er sammála þér með ýsuna Eiður. Ég ólst upp við ýsuát en nú finnst mér hún alltof slepjuleg, þorskurinn er margfalt betri matfiskur.

    Ég er ekki frá því að ýsuát sé fyrst og fremst eitthvert Reykjavíkurfyrirbæri. Þar sem ég þekki til úti á landi, t.d. á Austfjörðum og víðar, finnst mér fólk fremur vilja þorsk.

    Reykjavík var gríðarlega mikið úgerðarpláss í eina tíð og ég er með þá kenningu (ég er nebla löngu komin með kenningu um þetta) að þorskurinn hafi verið svo verðmæt útflutningsvara að reykvískur almenningur hafi vanist á ýsuát vegna þess að þetta var ódýr fiskur sem engin eftirspurn var eftir.

    Nú er ýsan jafndýr þorskinum (eða næstum því) sem er auðvitað fáránlegt.

    Þetta með að ýsan sé hrææta hef ég margoft heyrt. Ég hef bæði spurt fiskifræðing og haffræðing og þetta er rugl og einhver furðuleg goðsögn, sbr. það sem Steini Briem segir. Fyrir nú utan það að fiskur þarf ekkert að vera verri (bragðverri eða óheilsusamlegri) þótt hann sé í bland hrææta.

  12. Steini Briem skrifar:

    Fæða ýsunnar er margbreytileg. Ýsuseiðin éta einkum ýmis smákrabbadýr eins og ljósátu, rauðátu. Fullorðin ýsa étur ýmis konar fiskmeti, mest loðnu. Hún étur og botndýr eins og krabba og lindýr. Smáfiska eins og sandsíli, smásíld og spærling étur hún einnig, sem og rækju, fiskseiði, síldarhrogn og fleira.“

    Hafrannsóknastofnun – Helstu nytjastofnar

    Hrefnukjöt – Uppskriftir

  13. Sigurður skrifar:

    Humar og skötuselur eru líka hræætur en þykja nú svo sem ekki slormatur eða hvað?

    Allt bara smekkur.

  14. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Hugaði það sama með spaghettíð, óhjákvæmilega  hefur komið  slatti af vatni á diskinn.

  15. Ragnheiður Arna Magnúsdóttir skrifar:

    Sæll, ég hef mikinn áhuga á mat og verð ég að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þáttinn hennar Jóhönnu….. Eina sem ég gat hugsað mér að borða var hörpuskelfiskurinn, radísurnar og gúrkurnar!

    Ég hef heldur aldrei séð aðra eins samsetningu,  marineraður fiskur steiktur uppúr hálfu tonni af olíu, salat og, og, og SPAGETTÍ!! Til að toppa þetta þá tók hún Spagettíið  bara beint uppúr pottinum löðrandi í vatni og setti á diskinn…..ekki beint appetisant!

    Síðan fannst mér einhvern veginn allt vera í drasli þarna á bekknum……

    En góð tilraun samt…..

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>