«

»

Molar um málfar og miðla CLXXI

Skemmtileg frétt hjá RÚV (08.10.2009) um sykurskreytingar rússnesk/íslenskrar konu sem voru sannkölluð listaverk. :Það bætti hinsvegar ekki fréttina að fréttamaður skyldi tala um tvö verðlaun. Þeir sem segja fréttir í þjóðarsjónvarpinu verða að kunna grundvallarreglur tungunnar. Verðlaun er fleirtöluorð. Þess vegna átti að segja: Tvenn verðlaun. (forseti lýðveldisins hefur reyndar flaskað á þessu sama) Verslanakeðjan Krónan auglýsir hinsvegar góð verð, þótt orðið verð sé ekki til í fleirtölu. Málvilltir menn  semja auglýsingar fyrir Krónuna.

 

Moggabloggari skrifari (08.10.2009): EES samningurinn er í engri hættu. Betra væri að dómi Molaskrifara að segja: EES samingurinn er ekki í hættu , eða EES samningurinn er ekki í neinni hættu. Smekksatriði? Líklega.

 

Það er heldur óviðkunnanlegt að hlusta á alþingismann segja (08.10.2009): Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er ekki að henta okkur núna. Betra hefði verið: Okkur hentar ekki atbeini,eða aðstoð, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins núna. Í íþróttafrétt á Vefdv segir (08.10.2009): Við erum ekki að spila vel í vörninni og ég er ekki að spila vel persónulega.Smitandi veiki þessi talsháttur.

 

Fréttablaðið birtir æ fleiri áhugaverðari greinar. Molaskrifari vitnar hér til tveggja greina úr Fréttablaðinu (08.10.2009). Þorvaldur Gylfason ,prófessor skrifar: Þjóðminjasafnið þyrfti að láta semja og senda út slíka spurningalista um gömlu spillinguna:forréttindi, frænddrægni,fyrirgreiðslu,klíkuskap, mútur, nápot og annað hefðhelgað svindl sem fólk ýmist þekkir sjálft af eigin raun eða man eftir öðrum leiðum. Vel sagt og snjöll hugmynd. Þarna eru orð sem vert er að vekja athygli á, – frænddrægni ( ekki frændrækni !) nápot og hefðhelgað svindl.

 

Hin tilvitnunin er úr grein eftir Njörð P. Njarðvík, rithöfund og prófessor emeritus. Njörður lýkur grein sinni með þessum orðum: Þjóðin stendur nú uppi skuldum vafin sakir afglapa fjárglæframanna og vanhæfni stjórnmálamanna. Árgalli hefur komið í siðu þeirra og manvit og meðferðir er gæta skulu stjórnar landsins – og óáran hefur orðið á fólkinu – eins og segir í Konungsskuggsjá. Þessi alvarlegi árgalli verður ekki leystur með lánum frá öðrum þjóðum. Þjóðin skuldar sjálfri sér endurskoðun á tilveru sinni og tilgangi. Sú skuld verður ekki greidd nema með endurheimtri siðferðisvitund. – Vel sagt og orð að sönnu.

 

Minningargreinarnar halda Molaskrifara enn við áskrift að Mogga.

 

Merkilegt má það heita að í norskum fjölmiðlum er betliferðar íslenskra Framsóknarmanna til Noregs hvergi getið, að því Molaskrifari best fær séð. Hennar er ekki einu sinni getið á heimasíðu norska Framsóknarflokksins og er þar þó viðtal við draumaprins Framsóknarmanna Per Olaf Lundteigen. Í hádegisfréttum RÚV (08.10. 2009) kom fram að íslensku Framsóknarmennirnir séu aðeins að kynna Norðmönnum efnahagsástandið á Íslandi, en alls ekki að biðja um lán eins og var yfirlýstur tilgangur ferðarinnar!  Svo kom reyndar fram í Spegli RÚV (08.10.2009) að Per Olaf Lundteigen hafði bara nefnt  2000 milljón króna lán , sem dæmi !  Hann meinti í rauninni ekkert með þessu. Framsóknarmenn misskildu þetta allt  frá upphafi og  flugu tvisvar til Noregs  fyrir tóman misskilning!  Málið allt er makalaust rugl.  Þetta er mikil frægðarför og  Framsókn til framdráttar!

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eygló skrifar:

    Ég bara er ekki að fíla þessi góðu verð. Er til vont verð (eða vond verð)?  Þegar við notum þetta „góða“ verð gæti það allt eins verið himinhátt… og þar með mjög gott fyrir kaupmanninn?!

  2. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Maður er  orðinn  eins og  kínverskur  túlkur sem  kann ekki muninn á 100 þúsund og  10 milljónum. Ég   skrifaði 2000 milljónum  en það átti að vera 2000 milljörðum, það var upphæðin sem  Framsóknarmennirnir ætluðu að koma   með í poka frá  Noregi. Nú koma þeir líklega bara með Fríhafnarpoka.

  3. Steingrímur Kristinsson skrifar:

    Ef til vill er hugsunin á bak við setninguna „góð verð“ í auglýsingunni frá Krónunni sú að það séu nokkur góð verð í boði þar á nokkrum vörutegundum, restin af vörum verslunarinnar séu ekki á góðu verði.
    Góðlátlegt grín !

  4. Bjarni Sigtryggsson skrifar:

    Skemmtileg þýðing, orðið nápot, á nepot – nepotismi – en það þýðir frændi (e. nephew) og mun komið frá Róm, þar sem páfar til forna voru miklir valda- og peningamenn en áttu ekki börn. Þeir settu því frændur sína, jafnan eftirlætis bræðrasyni sína, yfir stofnanir og fyrirtæki. Guðni Bragason, þá sendifulltrúi í Róm, sagði mér þetta þegar við skoðuðum þar söfn fyrir fáum árum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>