«

»

Molar um málfar og miðla CLXX

 

Fleiri fréttir frá Færeyjum ! Gaman var að sjá myndir úr leitum og smölun í Færeyjum í fréttum RÚV (07.10.2009). Við þurfum að frétta fleira frá Færeyjum. Líklega hafa tugir þúsunda Íslendinga einhverskonar tengsl við Færeyjar. Vinur minn færeyskur sendi mér tölvupóst fyrir nokkrum dögum og þar sagði hann: Eg fór suður til Sumbiar at fletta veðrar og lomb hósdagin í síðstu viku. Tann besti veðrurin vá 70 pund. Skurðurin var betri enn meðal. Hetta var bara heimaseyðurin, men nú standa fjøllini fyri.

 

Í frétt á vef Ferðamálastofu (07.10.2009) segir: Þrátt fyrir 3,3% fækkun erlendra gesta nú, er þetta engu að síður annar stærsti septembermánuður frá upphafi talninga. September í fyrra var raunar óvenju fjölmennur en þá fjölgaði gestum um 12% á milli ára. Fyrstu 9 mánuði ársins er fjölgun upp á 0,5%..

 Annar stærsti septembermánuður og að september í fyrra hafi verið óvenju fjölmennur eru ambögur ,sem opinber stofnun á ekki að láta frá sér fara.

 

Upp úr þessari frétt Ferðamálastofu var unnin frétt ,sem birtist sama dag í Netmogga. Í henni voru enn fleiri ambögur, en  það má Netmoggi eiga að fréttin var lagfærð og verstu villurnar leiðréttar. Þar var þó enn að finna eftirfarandi:

Á hinn bóginn fækkaði brottförum Íslendinga um 35,4% í september frá sama mánuði fyrir ári, og er það í líkum takti og verið hefur á árinu. Samtals voru brottfarir Íslendinga tæplega 22 þúsund í september en voru um 24 þúsund á árinu 2008. Frá áramótum hefur brottförum Íslendinga fækkað um 43,8%, eða sem nemur um 151 þúsund á milli ára.Molaskrifari er ósátttur við þessa fleirtölunotkun orðsins brottför.  Úr Vefvísi (06.10.2009) : Annarsvegar var rúða brotinn í húsi Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja. Í hinu tilvikinu var rúða brotinn í heimahúsi. Sá sem þetta skrifar heldur greinilega að orðið rúða sé karlkynsorð ! Eftirfarandi er úr sömu frétt: Þrjú umferðarlagabrot komu upp í vikunni vegna hraðaksturs, aksturs á(n) ökuréttinda og svo var bifreið ólöglega lagt. Umferðarlagabrot komu upp? Þau hljóta þá að hafa verið niðri og komið þaðan upp, – eða hvað? Svo eru greinilega fátt um fína drætti á fréttamiðum,  þegar það þykir fréttnæmt að bifreið sé lagt ólöglega ! Það er líka flest orðið hey í harðindum þegar DV skýrir frá því að íslensk fyrirsæta hafi fengið lánaðan jeppling í útlöndum. Engu er líkara en stúlkutetrið, sem DV verður svo  tíðrætt um, oftast af engu tilefni, sé með launaðan umboðsmann á ritstjórn DV.DV segir frá því (07.10.2009) að formaður Framsóknarflokksins sé farinn til Noregs við annan (þing) mann til að ræða um lánveitingu til Íslands. Í umboði hvers, leyfir Molaskrifari sér að spyrja? Líklega munu Norðmenn brosa út í annað, ef ekki hlæja, enda er viðmælandi þeirra Per Olaf Lundteigen af mörgum talinn skrítnasta skrúfan í norskri pólitík og lítið mark á honum tekið. Íslenskir Framsóknarmenn eru líklega þeir einu sem taka manninn alvarlega. 

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

      Sá sem skrifar í DV : „Eiríkur var ekki kunnugur um þessi viðskipti….“ ætti ekkki að flytja okkur fréttir.

  2. Jón Óskarsson skrifar:

    Menningarritið dv.is

    „Eiríkur var ekki kunnugur um þessi viðskipti….“

    Fimmtudagur 8. október 2009 kl 16:37

    Höfundur: Ritstjórn DV (ritstjorn@dv.is)

  3. Sverrir skrifar:

    Hann féll frá í sumar eftir baráttu við krabbamein.

     sorgleg setning í DV – en í þessu tilfelli er verið að tala um hund!

  4. Eygló skrifar:

    Ég vona að þeir sem stunda brottfarir, geri það þá allavega í einrúmi

  5. Valur Kristinsson skrifar:

    Úr frétt á Vísi.is sem skrifuð var kl. 18:15 í dag um harmleikinn sem var að Hörðalandi í morgun: Það var snemma í 'fyrramálið' sem lögregla fékk hringingu frá 37 ára karlmanni sem fæddur er á Kúbu en hefur búið á Íslandi undanfarin ár.

  6. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Tölvan gerði mér grikk og  sleppti greinarskilum í seinna hluta þessarar  færslu. Biðst velvirðingar á því. Átta mig ekki alveg á af hverju þetta gerist stundum og stundum ekki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>