«

»

Molar um málfar og miðla CLXIX

  

  Icesave í hnetuskel , skrifar Moggabloggari (06.10.2009). Þetta er aulaþýðing úr ensku. Á íslensku  ætti  eftir málvenju að segja: Icesave í hnotskurn.

 

Þjóðarútvarpið RÚV heldur áfram að fara á svig við lög og misbjóða stórum hópi eigenda sinna. Nú fylgir auglýsing um Tuborg bjór  nýrri danskri þáttaröð um Trúðinn. Tuborg kostar sýningu þáttanna að einhverju eða öllu leyti. Hvað er stjórn stofnunarinnar að hugsa? Líkast til er hún ekkert að hugsa.

 Það ber vott um   skort á mannasiðum þegar þingmenn tala í farsíma á þingfundum, eins og sjá mátti einn þingmann Sjálfstæðisflokksins gera í fréttum  Stöðvar tvö (06.10.2009). Forseti á ekki að láta slíkt óátalið. Hinsvegar má til sannsvegar færa að betra sé að sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tali meira í farsíma en minna úr ræðustóli Alþingis. Litlu skárra er að sjá þingmenn og ráðherra önnum kafna við sendingu smáskilaboða. Forsætisnefnd á að banna notkun farsíma á þingfundum.

 

Í Spegli RÚV (06.10.2009) var einkar fróðlegur pistill um norska  Framsóknarmanninn Per Olaf Lundteigen ,sem enginn í Noregi tekur alvarlega, en í honum hafa íslenskir Framsóknarmenn fundið sér nýjan leiðtoga og spámann og ætlar flokksforystan að halda til fundar við hann í Noregi hið  fyrsta. Norðmenn hlæja þessum þingmanni og um hann má líklega segja að hann sé léttgeggjaður , en meðal einkunnarorða hans er :  Fara snemma á fætur, vera duglegur og sækja um ríkisstyrki. Sjálfsagt fara íslenskir Framsóknarmenn sumir snemma á fætur og eru duglegir, en þeir eru vanastir því að fá  ríkisfyrirtækin á silfurfati og þurfa varla að sækja um. Þetta mál er að verða mikill brandari. Molaskrifari mælir því að þeir sem þetta lesa hlusti á upphaf Spegilsins á Netinu.

 

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Bjarni, – tvíhliðasamningur  við ESB  stóð okkur aldrei til boða. Það er  sorglegt að  Sjálfstæðisflokkurinn  skuli nú  hampa  heimóttarlegri einangrunarstefnu.

    Með  góðum kveðjum –  Eiður

  2. caramba skrifar:

    Þetta er sennilega sami bloggarinn og talaði um að „berjast á banaspjót“. Sannleikurinn er sá að mikill fjöldi bloggara, ekki síst þeirra sem skrifa á mbl.is og eyjuna, eru óskrifandi. Ekki nóg með að menn kunni ekki einfaldar stafsetningarreglur, þeir eiga í stökustu erfiðleikum með að setja saman merkingarfræðilega óbrengaða setningu. Alveg sérstaklega virðist þetta eiga við um fólk sem vill einangra Ísland frá umheiminum og telur það fásinnu að borga skuldir sínar. Bloggið gerði öllum kjánum Ísalands kleift að viðra skoðanir sínar opinberlega og gagnrýnislítið. Þetta vilja menn kenna við lýðræði en mörkin milli lýðræðis og skrílræðis eru óglögg á stundum eins og dæmin sanna.

  3. Haukur Kristinsson skrifar:

    Ekki þekki ég setninguna sem Eygló vísar í, en hér gæti verið átt við „kjarna“ málsins, en ekki „hryggjarstykkið“. „Backbone“ eða „Rückgrat“ á þýsku þýðir hinsvegar oft stöðugleiki, festa. 

  4. Bjarni Kjartansson skrifar:

    Ekki hefur þessi bloggari lesið hina snörpu heimsádeilu  ,,Heimur í hnotskurn“  hvar Kommi og Prestur áttust við í bróðerni í smáþorpi á Ítalíu.

    Burðarás er frekar lýsandi en hryggjarstykki en ég hef heyrt rígfullorðna nota síðara orðið í svipaðri merkingu.

     Þakka góða pistla um málfar en pólitíkin þín er stundum stórmerkileg og á tíðum nær draumi en vöku.

    Bið alla Krata skoða hug sinn um stöðu okkar værum við og hefðum ætið verið UTAN EES svipað og Sviss er nú, með tvíhliða samninga við ESB.

    Ef menn eru fullkomlega heiðarlegir í þeirri rýni, liggur vísast fyrir, að ekki hefði verið frjáls flutningur fjár út úr landinu, þannig ekkert Icsave og öngvir peningar tapaðir í verslunarrekstri og þessháttar í Evrópu.  Vwerulega hefði verið snúnara, að fela og stela en raunin hefur verið síðari ár.

     Einnig væru færri glæpir framdir,(fæ nú að heyra að ég sé rasisti) þar sem ekki hefði verið frjáls flutningur manna milli svæða og því auðveldara, að hafa eftirlit með innflutningi áður dæmdra manna en verulegur misbrestur hefur verið á því eftir EES og Schengen.

    Frelsið er gott en á því eru skuggahliðar og ef menn eru ráðnir í, að misnota það, verður það gert.

    Með virðingu.

    Miðbæjaríhaldið

    þjóðernissinnaður bjartsýnismaður

  5. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Íslensk orðabók segir orðið hryggjarstykki  góða og  gilda íslensku; uppistaða  eða meginhluti. Mér er það hinsvegar ekki sérlega tamt.

  6. Eygló skrifar:

    Mér finnst líka einkennilegt að segja að eitthvað sé „hryggjarstykkið“ í e-u máli. Þekkist þetta á ísl. eða er þetta e.t.v. „the back bone“?

    „…Víking… er krafist virðingar…  „Fæ nábít í hvert sinn sem ég heyri þessa auglýsingu í sjónvarpi allra landsmanna. Sé fyrir mér gubbandi unglinga og fleiri.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>