«

»

Molar um málfar og miða CLXVIII

 

Það var órökrétt orðalag þegar sagt var i fréttum Stöðvar tvö ( 05.10.2009) um bréfaskriftir forseta Íslands til þjóðhöfðingja í þágu útrásarvíkinga að forsetinn segðist: … engin bréf hafa skrifað nema  eitt.  Rökrétt hefði verið að segja:.. að forsetinn segðist aðeins hafa skrifað eitt bréf, eða ekki hafa skrifað nema eitt bréf. Setningin: Engin bréf nema eitt, er út í hött.

 

Blóð á vettvangi innbrots, segir (05.10.2009) segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu. Hversvegna ekki: Blóð á innbrotsstað? Fréttin hefst á þessum orðum: Talsvert blóð fannst á vettvangi innbrots í Garði. Vettvangur og aðilar koma mjög við sögu í lögregluskýrslum. Það er algjör óþarfi fyrir blaðamenn að taka orðrétt upp úr vinnuplöggum lögreglu, þegar þeir eru að skrifa texta fyrir lesendur.

 

Bjarni Sigtryggsson sendi Molum eftirfarandi: Mér hefur orðið tíðrætt við þig um áhrif talsmáta í leikskólum á málfar fréttamanna. „Hann puttabrotnaði…“ sagði íþróttafréttamaður RUV nú í hádegisfréttum um það slys, þegar knattspyrnumaður fingurbrotnaði. Rétt athugað.

 

Ég þrífst á áskorunum,sagði íþróttamaður í  fréttatíma stöðvar tvö (05.10.2009) Ekki kann Molaskrifari að meta þetta orðalag.

 

Það var kjarni máls sem Jóhanna Sigurðardóttir sagði í stefnuræðu í kvöld (05.10,2009) og Árni Páll Árnason ítrekaði, að í Icesave málinu eigum við ekkert val. Við  verðum að ljúka málinu. Okkur er nauðugur einn kostur í þeim efnum. Þeir sem bera ábyrgð á Icesave klúðrinu neita hinsvegar að horfast í augu við þá staðreynd.

 

Merkilegt var að heyra í ræðum stjórnarandstöðunnar að Ögmundur og Guðfríður Lilja skuli nú komin í guða tölu og vera goðum lík. Það var líka merkilegt að heyra í ræðu varaformanns Sjálfstæðisflokksins, að helmingaskiptastjórnir íhalds og Framsóknar  (sem gáfu vinum sínum ríkisbankana) bæru enga ábyrgð á hruninu, heldur bara  síðasta ríkisstjórn  Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og  svo bæri Framsóknarflokkur  líka svolitla ábyrgð með hlutleysi  við minnihlutastjórn Samfylkingar og VG. Það er því ekki bara Mogginn sem nú er að endurskrifa sögum með helbláum penna. Það vakti líka  athygli   formaður Framsóknarflokksins nefndi ekki norsku milljarðakanínurnar sem þeir Framsóknarmenn hafa hafa verið að reyna að draga upp úr  hatti undanfarna daga. Enda allt tómt rugl.

 

Það var hárrétt hjá Siv Friðleifsdóttur að brotthvarf Ögmundar úr ríkisstjórn hafði ekkert með Icesave að gera. Icesave var skálkaskjól. Fyrrum formann BSRB brast hugrekki gagnvart niðurskurðinum í heilbrigðiskerfinu. Þessvegna var leikþáttur settur á svið. Ræða Sivjar var góð.

Molaskrifara fannst ræða Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra bera af öðrum ræðum á Alþingi þetta kvöld, – eins og gull af eiri.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    Úr því minnst er á málfar íþróttafréttamanna, í hverra hópi ég var í fyrndinni, fer ferlega í mínar fínustu taugar tuggan „kom inn á sem varamaður“. Sá sem kemur inn á í leik var varamaður en er nú orðinn aðal. Komi einhver til leiks eða vinnu „sem eitthvað“ tekur hann þátt sem slíkur til enda. Ég er kennari, en stundum kem ég til vinnu sem smiður og þá smíða ég (eða klambra). Í íþróttum er engin varamannsstaða til á vellinum; þar leika menn sem miðframherjar, svíperar, sem Gísli heitinn Jónsson vildi kalla sneril, eður frelsingjar svo eitthvað sé talið. Þetta tal þeirra sem um knattspyrnu véla í fjölmiðlum að menn leiki „sem varamenn“ er óþörf tugga og þar að auki villandi; fullkomlega er nóg að skrifa: „Jón kom inn á í síðari hálfleik“ til að öllum sé ljóst hvað um er að vera.

    Orð eru dýr; spörum þau.

    Og nú líður mér ögn betur

    Kv

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>