«

»

Molar um málfar og miðla 1926

HRÆÐANDI KALLAR OG LOFANDI HEITAVATNSÆÐAR

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (11.04.20016): ,,Sæll,

„Niðurstöðurnar benda einnig til að karlmenn þyki vera meira hræðandi en konur þegar fólk gerir sér óviðkunnanlegt fólk í hug.“ Þetta er úr vefritinu pressan.is Frekar kjánaleg málsgrein og margt bendir til að hún sé þýdd af meiri vilja en getu. Furðulegt að höfundurinn, Kristján Kristjánsson, skuli ekki hafa lesið greinina yfir. Hún er raunar öll svo yfirgengilega heimskuleg að maður skammast sín hálfpartinn fyrir að viðurkenna lesturinn.

 

„Hittu á lofandi heitavatnsæðar,“ segir í fyrirsögn á visir.is. Þetta er illt orðalag. Betra hefði verið að skrifa; Hittu á vænlegar heitavatnsæðar. Þegar svona orðalag sést fær maður það á tilfinninguna að blaðamaðurinn sé ekki vanur skrifum og hafi ekki yfir að ráða nægilegum orðaforða til að skrifa skammlaust. Raunar virðist útgáfufyrirtækið 365 leggja litla áhersla á gott mál og góðan stíl. Hraðinn er slíkur að fréttir verða oft flausturslegar og illa skrifaðar.”

Kærar þakkir fyrir bréfið, Sigurður. Það er rétt,sem þú segir. Metnaðurinn hjá 365 miðlum til þess að gera vel, vanda sig , er sjaldan fyrir hendi.- Sá sem skrifaði þetta um heitavatnsæðarnar hefur sennilega verið að hugsa á ensku. En á því máli er orðið promising notað um sem er vænlegt, eða ástæða til að binda vonir við.

 

SVOKALLAÐAR HOLUR

Þegar erfiðari málin ber á góma, verða embættismenn Reykjavíkurborgar oft fyrir svörum í fjölmiðlum. Rætt var við borgarstarfsmann í morgunútvarpi Rásar 2 (13.04.2016) um malbikun og holóttar götur. Hann talaði um ,,svokallaðar holur” (samanber talið um ,,svokallað hrun”) í götum borgarinnar. Molaskrifari hefur séð margar djúpar holur, með hvössum brúnum í gatnakerfinu á höfuðborgarsvæðinu. Þær hafa valdið skemmdum á farartækjum. Hann vissi ekki að þetta væru ,,svokallaðar holur”. Hélt að þetta væru holur.

 

 

 

AÐ BÖSTA!

Þeir voru böstaðir með einhverjar þrælaverksmiðjur, sagði umsjónarmaður í morgunútvarpi Rásar tvö (12.04.2016). Gripnir, leiðrétti samverkamaður konunnar, samstundis. Gott. Það á ekki að fá fólk til umsjónar með daglegum útvarpsþáttum, sem sífellt slettir á okkur ensku. Þarf ekki að hlusta lengi til að fá á sig slettu. Það er ekki boðlegt og Ríkisútvarpinu ekki sæmandi.

ÚTVARPSSTJÓRI

Gott var að heyra útvarpsstjóra (13.02016) Ríkisútvarpsins tala um að hlutur menningarefnis í dagskránni yrði aukinn. Þýðir það ekki örugglega að svonefndar ,,Hraðfréttir”, sem hvorki eru hraðar né fréttir verða ,lagðar niður? Ríkisútvarpið hefur aldrei viljað svara því hvað þessir þættir kosta, en þeir bera það með sér að vera dýrir.  Athygli vakti, að í viðtalinu var ekki minnst á hlut íþróttaefnis í dagskrá  sjónvarps. Það hefur aukist hröðum skrefum og er nú stærri hluti dagskrárinnar en nokkru sinni fyrr. Það á ekki síst við um fjasið, sem jafnan er sent út á undan og eftir kappleikjum. Þar er rætt við menn sem kallaðir eru ,,sérfræðingar”.  Það mætti alveg draga úr því.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>