«

»

Molar um málfar og miðla 1927

AÐ FLOPPA

Leikritið floppaði, sagði málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins í Málskoti í morgunútvarpi ( 12.04.2016). Það var og. Þetta á víst að heita gott gilt, en óformlegt, segir orðabókin.

Í sama þætti var líka rætt um framburð á orðum, sem enda á –unum og venjulega er borið fram – onum, /stelponum/, /strákonum/. Þá rifjaðist upp fyrir Molaskrifara ,að á upphafsárum Sjónvarpsins kom sá mæti maður, prófessor Baldur Jónsson, nokkrum sinnum til okkar, sem lásum fréttir og hlustaði á okkur lesa og gerði athugasemdir og leiðbeindi. Man, að ég las fyrir hann texta þar sem Bandaríkin voru nefnd í þágufalli, Bandaríkjunum, sem ég las eins og orðið er skrifað,  BANDARÍKJUNUM. Hann leiðrétti mig og sagði: Þú átt að segja /Bandaríkjonum/ , það er eðlilegur íslenskur framburður. Síðan hef ég fylgt þeirri reglu.

 

VIKUDAGSKRÁIN

Vikudagskráin er lítið hefti með sjónvarpsdagskrá, sem dreift er á öll heimili í Kópavogi, Garðabæ/Áftanesi og Hafnarfirði. Skilst að þetta sé hluti af fjölmiðlaveldi Framsóknarmannsins Björns Inga Hrafnssonar. Þetta er heldur subbulega útgefinn bæklingur. Síðast stóð á forsíðunni dagsetningin 6.- 12. apríl. Inni í blaðinu stóð á öllum dagskrársíðum að þetta væri sjónvarpsdagskráin 23. mars til 29. mars.

 

ÁBÓTAVANT OG TÝND KONA

Úr frétt á mbl.is (13.04.2016): ,,Lögmaður húsfélagsins telur að eftirlit byggingafulltrúa hafi verið verulega ábótavant og hefur sent bæjarfélaginu bréf þar sem hann óskar eftir viðræðum um bætur”.

Hér hefði átt að tala um að eftirliti byggingarfulltrúa hafi verið ábótavant.  Þessum fréttaskrifum er ábótavant. http://www.ruv.is/frett/blokk-i-gardabae-storgollud-ibuar-vilja-baetur

Hér er svo annað dæmi um hörmulega illa skrifaða frétt af mbl.is (13.04.2016). Fréttin er um konu sem villtist og fann ekki bílinn sinn aftur. Bíllinn hafði orðið bensínlaus í óbyggðum í Arizona í Bandaríkjunum. Sagt er að konan hafi verið týnd! Einnig er sagt að  hún hafi verið að leita að bæjarstæði! Endemis rugl. Fréttin endar á tilvísun í frétt á sama miðli þar sem  skipbrotsmenn voru kallaðir strandaglópar! Kannski sami maður hafi skrifað báðar fréttirnar.

Ja, hérna. Þetta er ekki gott. Sjá: http://www.ruv.is/frett/heil-a-hufi-eftir-niu-daga-i-obyggdum-arizona

 

BYLGJUFRÉTTIR OG STÖÐ TVO

Í hádegisfréttum Bylgjunnar var fjallaði um nokkra smástyrki sem fyrrverandi utanríkisráðherra veitti  fjórum aðilum, af lið sem venjulega er kallaður ráðstöfunarfé ráðherra, innan við eina milljón króna samtals. Þar af fór þriðjungurinn til Landgræðslunnar vegna ráðstefnuhalds. Ekki nýtt fyrirbæri, en fyrirkomulagið kannski ekki ákjósanlegt.  Í fréttum Bylgjunnar (12.04.2016) var talað um ,,styrki úr skúffufé sínu”.

Í sama fréttatíma var sagt: ,, Næsti fundur flugumferðastjóra og Samtök atvinnulífsins verður ….”. Samtaka atvinnulífsins hefði þetta átt að vera.

Í kvöldfréttum Stöðvar tvö sagði fréttamaður: Páll segir að tæpur þriðjungur allra hjartaaðgerða á árinu hafi verið frestað … Þetta hefði átt að vera , … að tæpum þriðjungi allra hjartaaðgerða hafi verið frestað... Í sama fréttatíma sagði fréttamaður: Við ætlum svo að ræða við Ragnheiði Ríkharðsdóttir , formann þingflokks ….

Hvar er kunnáttan? Hvar er metnaðurinn?

 

SMARTLAND BREGST EKKI

Smartland, svo nefnt, á mbl.is bregst ekki frekar en fyrri daginn. Fyrirsögn (13.04.2016):Klæddist ófáanlegum kjól á frumsýningu. Snilldin!

http://www.mbl.is/smartland/tiska/2016/04/13/klaeddist_ofaanlegum_kjol_a_frumsyningu/

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>