«

»

Molar um málfar og miðla 1928

TILVÍSUNARFORNÖFN OG FLEIRA

Þorvaldur skrifaði (13.04.2016):

,,Sæll Eiður. Enn eiga blaðamenn í erfiðleikum með tilvísunarfornöfn. Í vefmogga segir að óheimilt sé að fella tré á eignarlóðum sem eru eldri en 60 ára eða yfir 8 metrar á hæð. Minnir mann á auglýsinguna í sögunni af Bör Börssyni um rúm fyrir hjón sem eru á hjólum.

Einnig er sagt frá bruna í húsnæði N1 í Ártúnshöfða, þar segir að tvær stöðvar séu á staðnum, þar mun átt við slökkviliðsmenn frá tveim slökkvistöðvum.” Þakka þér bréfið, Þorvaldur, og réttmætar ábendingar. Þetta með tvær stöðvar, sést ærið oft í fréttum nú orðið, því miður. Virðist hafa verið lagfært í fréttinni, – seinna. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/13/nagranni_felldi_tre_i_othokk_eigenda/

 

EKKERT SVAR

Enn eitt dæmið um spurningu sem beint var til stjórnmálamanns og hann svaraði ekki, var í fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (13.04.2016). Þrír stjórnmálamenn voru spurðir um nýja skoðanakönnun, sem sýndi mikla fylgisaukningu hjá Sjálfstæðisflokki. Bjarni Benediktsson var spurður hvort fylgisaukningin hefði komið honum á óvart. Bjarni svaraði með því að fara yfir stöðuna eins og hún blasti við honum, en sagði ekki orð um hvort þetta hefði komið honum á óvart, – eins og um var spurt. Sennilega hlustaði fréttamaður ekki á svar Bjarna  því spurningunni var ekki fylgt eftir. Við vorum sem sé engu nær um það hvort þetta kom Bjarna á óvart, – enda skipti það svo sem ekki miklu máli. – Þetta er of algengt í viðtölum í ljósvakamiðlum.

 

VILLANDI FYRIRSÖGN

Fyrirsögnin á mbl.is (14.04.2016) Staðfesti siðareglur fyrir ráðherra ásamt mynd af Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra er villandi. Beint liggur við að skilja þetta svo , að forsætisráðherra hafi staðfest siðareglur fyrir ráðherra. Svo er ekki. Stjórn samtakanna Gagnsæis er að skora á ráðherra að staðfesta siðareglur fyrir ráðherra. Ekki vönduð vinnubrögð.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/14/stadfesti_sidareglur_fyrir_radherra/

 

 

LEIÐRÉTTI ÞAÐ SEM VAR RÉTT

Í morgunþætti Rásar tvö (13.04.2016) var rætt við doktorsnema í líffræði um hvalahljóð. Fróðlegt viðtal. Doktorsneminn sagði að maður þyrfti ekki að fara nema rétt út fyrir landsteinana ( til að sjá hvali). Þetta var alveg rétt og gott orðalag, en viðkomandi leiðrétti sig og sagði: … rétt út í sjó. Það er ekki gott orðalag. Rétt fyrir utan landsteinana er örstutt frá landi. Alveg prýðilegt orðalag.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>