«

»

Molar um málfar og miðla 1929

 

SUMARDAGURINN FYRSTI Á FIMMTUDEGI

Molalesandi skrifaði (16.04.2016) ,, Heill og sæll,

Í kvöldfréttum Sjónvarps í kvöld 16. apríl upplýsti fréttamaður, sennilega Hallgrímur Indriðason, áhorfendur um það, að Sumardagurinn fyrsti yrði næstkomandi miðvikudag. Hann leiðrétti sig síðar, augljóslega eftir athugasemd frá starfsfélaga, en leiðréttingin var aum. Hann sagði, að Sumardagurinn fyrsti yrði ekki á miðvikudag heldur fimmtudag, eins og það væri bara þetta árið.

 

Þetta minnir á Víkverja Morgunblaðsins (Ívar Guðmundsson) á fimmta áratug síðustu aldar, sem sagði í dálki sínum að „Sumardaginn fyrsta ber nú upp á fimmtudag, eins og svo oft áður.“ Að sjálfsögðu var hent gaman að Ívari fyrir þessa fljótfærnis villu. En þessi er verri.”

Molaskrifari þakkar bréfið. Hann heyrði þetta líka. Dálítið skondið, – leiðréttingin ekki síður!

 

BEGGJA SLÆMRA

Málglöggur lesandi benti Molaskrifara á fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins (15.04.2016): Á tveggja kosta völ – beggja slæmra.

Molaskrifari þakkar ábendinguna, – honum finnst þetta einnig vera ankannalegt orðalag. Betra hefði verið til dæmis: Á tveggja kosta völ – báðir slæmir. Einnig benti þessi lesandi Morgunblaðsins á þetta: ,, …. að þýsk yfirvöld saksæki sjónvarpsgrínista fyrir að móðga forseta Tyrklands ….” Sögnin að saksækja er ekki í orðabók Molaskrifara, en þetta er svo sem vel skiljanlegt, þótt einhverjum þyki orðalagið ekki til fyrirmyndar.

 

KJÁNAGANGUR Í FRÉTTUM

Fréttir í sjónvarpsstöðvum á Vesturlöndum þróast æ meira a í þá átt að vera einhverskonar skemmtiatriði, – ekki fréttir , – heldur oft einhver kjánagangur.

Við sáum þetta í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna á föstudagskvöld.

Borgarstjórinn í Reykjavík ætlaði að setja sumardekkin undir bílinn sinn. Hringdi, eða lét hringja í báðar sjónvarpsstöðvarnar. Þær hlýddu. Mættu. Varla voru myndatökumenn beggja staddir á sama stað, á sama tíma fyrir algjöra tilviljun?  Mynduðu samviskusamlega og sama ,,ekki fréttin” birtist í fréttatímum beggja stöðva. Borgarstjóri lét sem hann væri starfsmaður á dekkjaverkstæði og fór að umfelga. Það er varla verk fyrir viðvaninga.  Svo mæta embættismennirnir í sjónvarpsfréttirnar, þegar verja þarf holótt og hættulegt gatnakerfi höfuðborgarinnar.

 

 

GRIMMRI

Úr fréttum Ríkisútvarps klukkan tíu á laugardagsmorgni (16.4.2016):,,Skjálftinn í gær var mun stærri og grimmri, en sá fyrri

Grimmari. Raunar skrítið að tala um grimman jarðskjálfta. Betra hefði verið að tala um kröftugan jarðskjálfta. Oft er talað um snarpan jarðskjálfta, en eru ekki allir jarðskjálftar snarpir? Þegar jörðin sjálf, terra firma, er ekki lengur stöðug, traust.

Enginn las yfir. Enginn leiðbeindi.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>