«

»

Molar um málfar og miðla 1930

BRESKA KONUNGSDÆMIÐ!

Í Kastljósi gærkvöldsins (18.06.2016) var rætt við forseta mannréttindadómstóls Evrópu. Þar nefndi hann mál, sem hefði verið erfitt úrlausnar, mál Hollendingsins Hirst ,en á ensku sagði hann: ,, the case of the Dutchman Hirst against the United Kingdom. Íneðanmálstexta var okkur sagt frá máli Hollendingsins Hirst gegn breska konungsdæminu!!! Ríkissjónvarpið okkar á að geta gert betur en þetta!

 

Í GEGNUM HURÐINA!

Rétt áður en bein útsending hófst frá blaðamannafundi forseta Íslands í gær (18.04.2016) á Bessastöðum, sagði dagskrárgerðarmaður (ekki fréttamaður) Ríkisútvarpsins, Rásar tvö, í beinni útsendingu frá Bessastöðum: ,, Hurðin er ennþá lokuð sem að ég svona reikna með að forseti komi í gegnum….” Þetta var vissulega sögulegur fundur, en það hefði sannarlega verið enn sögulegra, ef Ólafur Ragnar Grímsson hefði komið í gegnum hurðina. Það gerði hann sem betur fer ekki, bæði fyrir hurðina og hann. Hurð er nefnilega eins konar fleki til að loka dyrum eða opi, – segir orðabókin.

 

FJÁRMAGN OG ÞEGNAR

Í spjalli stjórnenda morgunþáttar Rásar tvö (15.04.2016) var talað um að fjármagn hafi verið skotið undan. Fjármagni var skotið undan , hefði verið rétt. Í sama spjalli ræddu umsjónarmenn notkun orðsins þegn, undruðust svolítið að það skuli notað, en ekki talað t.d. um borgara. Molaskrifari sér ekkert athugavert við þetta ágæta orð, – fínt að tala um þegna, – íslenskir þegnar, íslenskir borgarar, Íslendingar.

 

HVERSVEGNA?

Hversvegna láta forsætisráðherra, utanríkisráðherra , nokkrir þingmenn og Guðni Th. Jóhannesson,sagnfræðingurinn, sem hefur verið að íhuga forsetaframboð, Hraðfréttir Ríkissjónvarpsins gera sig að fíflum (16.04.2016)? Er allt til vinnandi til að komast skamma stund á skjáinn? Halda þeir að þetta auki virðingu þeirra eða þingsins? Ég held ekki. Svo var þetta reyndar svo ófyndið sem mest mátti verða.

 

 

SLETTUFYRTÆKIN

Eftirgreind fyrirtæki eru einna fremst í flokki þeirra sem sífellt sletta á okkur ensku orðunum tax-free í auglýsingum.

Rúmfatalagerinn

Ilva, – gott ef það fyrirtæki segir ekki líka ,,go crazy”

Húsgagnahölllin

Hagkaup

A-4

Heimkaup

Ekki er verið að veita neina undanþágu frá greiðslu skatta. Það er bara verið að veita tiltekinn afslátt.

Annað fyrirtæki mætti og nefna hér. Það auglýsir í blöðum: Ertu að leita að talent? Fyrirtækið spyr hvort þú sért að leita að hæfum starfsmanni. Þetta er ráðningarþjónusta, sem heitir reyndar Talent.

Þeim sem semja þessar auglýsingar finnst greinilega fínna að nota ensku en að nota móðurmálið, íslensku. Það er ekki fínna.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>