Þrennt hefur orðið mér umhugsunarefni núna um helgina.
Í fyrsta lagi hversu vel var bersýnilega staðið að skipulagningu og leit að Þjóðverjunum tveimur sem týndust á öræfum Vatnajökuls. Leitin bar því miður ekki árangur ,en engum dylst, að við eigum harðsnúið lið björgunarmanna, sem eru vel tækjum búnir og þrautþjálfaðir. Þeir unnu afrek við erfiðar aðstæður.
Björgunarsveitirnar, landhelgisgæsla og lögregla eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðu sína.
.
Í öðru lagi hve hratt og örugglega var brugðist við rútuslysinu í Bessastaðabrekku eystra. Frá sjónarhóli áhorfanda hér syðra var ekki annað að sjá en þetta hefði gengið hratt og fumlaust fyrir sig og slösuðum komið undir læknishendur á undraskömmum tíma. Þar var greinilega fyrir hendi þjálfað lið, sem vann eftir viðbragðsáætlun,sem dugði þegar á reyndi.
Í þriðja lagi afrek reykkafaranna tveggja úr Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem björguðu tveimur unglingsstúlkum frá bráðum bana í eldsvoðanum að Stuðlum. Þeir hættu lífi sínu og góð þjálfun reið baggamuninn.
Allt er þetta hrósvert og staðfestir hve nauðsynlegt er að liðsmenn landhelgisgæslu, lögreglu og björgunarsveita hafi yfir að ráða góðum búnaði og séu í góðri þjálfun.
Það er þessvegna sorglegt þegar heyrast raddir úr hópi stjórnmálamanna,sem reyna að gera viðleitni Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra tortryggilega, þegar hann stuðlar að því að þessar öryggissveitir okkar séu sem best búnar og í góðri þjálfun til að bregðast við aðsteðjandi vá og vanda.
Skildu eftir svar