«

»

Molar um málfar og miðla 1963

SKIPIN SLÖKKVA Á SÉR

Undarlega var að orði komist í fréttum Ríkisútvarps (09.06.2016) þegar var fjallað var um hremmingar skipa í breska flotanum vega mikils hita. Sagt var að breski sjóherinn væri í vandræðum vegna þess að skip hefðu slökkt á sér vegna hita. Skip slökkva ekki sér. Það hefur sennilega drepist á vélunum vegna hita.

 

SKRIKAÐI FÓTUR

Úr frétt á visir.is (09.06.2016) um banaslys í Bandaríkjunum, í Yellowstone Park þjóðgarðinum.,,lÁ laugardag brenndist þrettán ára drengur þegar faðir hans, sem var með hann á hestbaki, skrikaði fótur þannig að drengurinn steyptist í sjóðandi vatn”. Faðir hans skrikaði ekki fótur. Föður hans skrikaði fótur. Enn eitt dæmi um metnaðarleysi.

 

EITT AF ENDALOKUM FLUGVALLARINS

Úr frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins (10.06.2016). Úr viðtali Ríkisvarpsins við forsætisráðherra: ,,Aðspurður um hvort þetta sé eitt af endalokum flugvallarins í Vatnsmýrinni segir hann að það sé umhugsunarefni.” ,,Eitt af endalokum …”  Það er eitthvað   að hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins þegar svona ambaga birtist öllum landsmönnum á fréttavefnum.

 

VIÐ HÖFNINA – ENN EINU SINNI

Úr frétt á mbl.is (14.06.2016): ,, Seg­ir í dag­bók lög­reglu að grun­ur leiki á að menn­irn­ir hafi ætlað sér að ger­ast laumuf­arþegar með einu skemmti­ferðaskip­anna sem þar ligg­ur nú við höfn­ina.”   Enn einu sinni er þetta nefnt. í Molum. Skip liggja ekki við höfn. Skip eru í höfn. Skip liggja við bryggju. Skip liggja við festar. Þetta er ekki flókið.

 

LÁN Í ÓLÁNI

Úr frétt á mbl.is (17.06.2016): ,, Það ólán varð við þjóðhátíðar­hald niðri í miðborg Reykja­vík­ur í dag að for­seta­bif­reiðin, Packard-bif­reið frá ár­inu 1942, fór ekki af stað.” Meira ólánið ! En það var sannarlega lán í óláni, að nærstödd var sveit vaskra lögreglumanna,sem hafði lítið fyrir því að ýta forsetadrossíunni, Packard árgerð 1942 í gang!

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/17/yttu_forsetabilnum_af_stad_3/

 

AÐ BIÐLA TIL

Úr frétt á mbl.is (12.06.2016); ,,Michael Cheatham, skurðlækn­ir á Or­lando Health-spít­al­an­um, hef­ur biðlað til fólk um að gefa blóð vegna árás­inn­ar sem fram­in var á Pul­se-skemmti­staðnum í Or­lando í nótt.”

Biðlað til fólks, hefði þetta átt að vera. Að biðla til e-s er að biðja e-n að gera eitthvað. Þetta var hinsvegar rétt í fyrirsögn fréttarinnar. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/06/12/bidla_til_folks_ad_gefa_blod/

 

AÐ MEIKA SENSE

,,Mér finnst það meika sense”, sagði kona, sem rætt var við í endurteknum þætti í Ríkisútvarpinu undir miðnætti á fimmtudegi (16.06.2016) . Við eigum ekki að tileinka okkur svona orðalag. Að meika sense, er ekki góð íslenska. Ekki vandað mál.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða senda einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Góð ábending. Takk.

  2. Sigurður skrifar:

    þegar faðir hans, sem var með hann á hestbaki, skrikaði fótur þannig að drengurinn steyptist í sjóðandi vatn”. Ef feðgarnir hafa veriðá hestbaki, þá hefur hestinum skrikað fótur. En ef faðirinn hefur borið drenginn æa öxlum sér, þá hét það í gamla daga að vera borinn á háhesti. Er það ekki sennilegra????

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>