«

»

Molar um málfar og miðla 1964

ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLA – EKKI KOSNING

Málglöggur lesandi skrifaði Molum (21.06.2016):

,,Hvað segir þú um þetta upphaf á forystugrein í Fréttablaðinu?

 

„Bretar kjósa nú á fimmtudag um áframhaldandi veru sína innan Evrópusambandsins. Kosningarnar eru tvísýnar, skoðanakannanir síðustu mánaða hafa verið meira og minna jafnar upp á hár.“

 

Er þetta ekki þjóðaratkvæðagreiðsla? Enginn talar um þjóðarkosningu – eða hvað? Kannanir „meira og minna jafnar upp á hár“? Klúðurslegt?” Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er óttalegt klúður, rétt er það.- Í fréttum Stöðvar tvö nýlega var fjallað um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretland og tvívegis sagt að breska þjóðin væri tvíklofin í málinu ! Tvíklofin! Fyrst klofin og svo klofin aftur , – eða hvað?

 

VATN OG SJÓR

Á laugardagsmorgni (18.07.2016) var í fréttum Ríkisútvarps sagt frá bátnum sem Landhelgisgæslan lyfti af hafsbotni og fór með til Ísafjarðar svo hægt væri að hefja rannsókn því m.a. hversvegna björgunarbátar losnuðu ekki frá bátnum þegar hann sökk. Sagt var að verið væri að dæla vatni úr bátnum. Að sjálfsögðu var ekki verið að dæla  vatni úr bátnum. Það var verið er að dæla sjó úr bátnum.

 

HÁTALARINN Á RÁS EITT

Sérstök ástæða er til að hrósa tónlistarþáttum Péturs Grétarssonar, ,,Hátalaranum” á Rás eitt í Ríkisútvarpinu í kjölfar fjögur frétta. Ekki einasta eru þessir þættir afar fjölbreyttir þegar að tónlistarvali kemur heldur er þar miðlað margvíslegum fróðleik fyrir tónelska. Pétur er fjölfróður og vinnur þessa þætti  einstaklega vel. Þetta er meðal besta efnis Ríkisútvarpsins yfir daginn. Takk fyrir það.

 

SPENNUFALL

Úr frétt á mbl.is (20.06.2016):,, Ég er ennþá í spennu­falli þetta var æðis­legt,“ sagði Karólína Inga Guðlaugs­dótt­ir eft­ir að hafa dregið mynd­ar­leg­an 12-13 punda hæng á land í Elliðaánn­um í morg­un.” Aftur og aftur sjáum við tvö – n – í þágufalli fleirtölu  þar sem aðeins ætti að vera  eitt – n – . Við sjáum þessa villu aftur og aftur, sem gefur okkur til kynna að enginn les yfir það sem fáákunnandi skrifa áður en það er birt.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/20/eg_er_enntha_i_spennufalli_3/

 

ENN UM SLETTUR

Á laugardagskvöld (18.06.2016) hlustaði Molaskrifari á brot úr sjónvarpsviðtali við ,,fótboltafræðing”. Á sömu mínútunni tókst honum að tala um að bleima, ( e. to blame) , kenna um og að kríeita (e. create, skapa). Velti fyrir mér hvort honum þætti flott að sýna að hann kynni orð og orð í ensku eða hvort hann var bara svona illa að sér í móðurmáli sínu? Hvort sem var, þá var þetta málfar ,,fræðingnum “ ekki til sóma.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða senda einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>