«

»

Molar um málfar og miðla 1965

 

LÉST EÐA VAR DREPINN?

Sigurður Sigurðarson skrifaði (20.06.2016): ,, Þessi frétt er varla boðleg á visir.is. Í upphafi fréttar segir Nanna Elísa Jakobsdóttir, blaðamaður: „Anton Yelchin lést í bílslysi fyrr í dag.“ Og svo heldur hún áfram:

 

„Leikarinn Anton Yelchin var drepinn í örlagaríku bílslysi snemma í morgun,“ sagði í yfirlýsingu frá talsmanni hans. „Fjölskylda hans biður um að borin verði virðing fyrir þeirra einkalífi á þessari stundu.“ 

 

Lesandinn spyr sig hvort maðurinn hafi látist í bílslysi eða verið drepinn í bílslysi. Á þessu tvennu er mikill mundur. Í því seinna er einfaldlega um morð að ræða. Líklega er blaðamaðurinn ekki betur að sér heldur þýðir eftirfarandi hrátt úr ensku: „Was killed in an accident.“

 

Látum nú vera að fréttabarnið geri asnalega villu. Hitt er verra að enginn les yfir og verst er að fréttabarnið heldur að hún hafi skrifað bara ansi góða frétt. Væri einhver til í að leiðbeina og kenna henni um leið hvað nástaða er?” Þakka bréfið Sigurður.

 

INNGANGUR AÐ KOSNINGUM

Í fréttum Ríkissjónvarps (21.06.2016) var sagt var talað um inngang að kosningum. Átt var við inngang að kjörstað í Perlunni þar sem utankjörstaðaratkvæðagreiðsla fer fram.

 

LOKSINS, LOKSINS

Loksins, loksins gat þessi þjóð sameinast um eitthvað! Allir fagna sigri Íslands í leiknum í dag (22.06.2016). Stórkostleg frammistaða íslenska liðsins gegn Austurríki. – Þetta var ,eins og einhver fréttamaður sagði, algjör spennutryllir.

 

FRÉTT Á ENSKU

Á vef  Ríkisútvarpsins  (22.06.2016) er frétt á ensku um sigurleik Íslands í gær  gegn Austurríki. Ef verið er að  skrifa fréttir á ensku verða menn að kunna stafsetningu á því ágæta tungumáli.

Það er  ekkert til sem heitir Farytale victory. – Fairytale ætti það að vera.   http://www.ruv.is/frett/farytale-victory-in-paris-iceland-2-austria-1

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Held ekki, en athuga málið og birti þá aths. um þetta hafi verið lagfært. K kv esg

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll aftur,

    Ég sé að það er búið að umorða fréttina og ruglið hefur verið tekið út að mestu en þú hefur vonandi náð að vista hana.

    Kv, Egill

  3. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Egill. Þetta er réttmæt athugasemd. Veit ekki hve margir lesa athugasemdirnar. Má ég ekki birta hana með nafni þínu í Molum í vikunni. K kv eidurgudnason@gmail.com

  4. Egill Þorfinnsson skrifar:

    http://www.mbl.is/sport/frettir/2016/06/28/vissu_ekki_einu_sinni_sterkasta_lidid_sitt/

    Sæll Eiður,

    Ég rakst á þessa fyrisögn á mbl.is nú í kvöld. Hún er mér með öllu óskiljanlleg svo og fyrsta málsgrein fréttarinnar.
    Hvað er að gerast ? Það líður ekki sá dagur að ég hnjóti ekki um eitthvað á vefmiðlum sem er með öllu óskiljanlegt.
    Ég veit að margt er birt óbreytt að því er virðist úr „google translate“ en ég held líka að það sé að færast í vöxt að fréttaskrifarar viti ekkert í sinn haus. Staðreyndavillur eru líka orðnar daglegt brauð. Þú fjallaðir nýlega um það að menn virðast ekki gera neinn greinarmun á því hvort menn farist, láti lífið eða deyji úr sjúkdómum. dv.is fjallaði í síðustu viku um konu sem lét lífið vegna sýkingar í heila. Ég benti dv.is á að fólk dæi úr sjúkdómum en léti ekki lífið og höfðu þeir manndóm til að leiðrétta þetta síðar um daginn.
    Fyrir þó nokkru síðan birtist í Fréttablaðinu í dálknum „Þetta gerðist“ að þennan dag árið 1900 hefði Oscar Wilde látið lífið í París. Ég sendi Féttablaðinu tölvupóst og óskaði eftri vitneskju um hvaða slyski Oscar hefði lent í en fékk ekkert svar. Ég stóð í þeirri meiningu að Oscar hefði dáið á sóttarsæng.
    Eiður ég veit að það er ljótt að segja það en ég held að vandamálin sem steðja að íslenskri tungu séu ekki einungis léleg íslenskukunnátta heldur einnig vaxandi þekkingaleysi þeirra sem vinna hjá fjölmiðlum.

    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>