«

»

Molar um málfar og miðla 1981

NOTKUNARVALKOSTUR

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (13.07.2016):

,,Ólafur Oddsson kenndi íslensku í MR. Ég notaði einhverju sinni orðið „valkostur“ í ritgerð. Hann fullyrti að það orð væri ekki til. Samsetningin er val og kostur og merkir nokkurn veginn hið sama, þó blæbrigðamunur sé á þeim.

Við lestur á skýrslu um sæstreng milli Íslands og Bretlands rakst ég á þessa málsgrein:

Einnig er nauðsynlegt að nefna fónarkostnað auðlindanýtingar, þ.e. hagnað af besta notkunarvalkostinum sem ekki var valinn.

 

Þetta er stagl; val sem ekki var valið. Þarna hefði einfaldlega verið hægt að segja … það er hagnað af besta kostinum sem þó var ekki notaður. Tek það fram að það sem ég hef lesið í skýrslunni er ágætlega skrifað og á góðum máli ef frá eru dregin svona „smáatriði“.

Forðum daga tók ég mark á hinum ágæta íslenskukennara mínum og hef síðan ekki notað rassböguna „valkostur“. Orðið má kalla tvítekningarorð. Af öðrum álíka sem rekið hafa á fjörur mínar má nefna hið fræga „bílaleigubíll“, einnig „pönnukökupanna“, „borðstofuborð“ og „hestaleiguhestur“. Fróðlegt væri að fá að vita um fleiri álíka orð. Hægt er að búa til tvöfalt tvítekningarorð og segja „pönnukökupönnukaka“ en ef til vill er það of mikið af vitleysunni.”

Þakka bréfið, Sigurður. Rifjar upp fyrir Molaskrifara, að í MR talaði Ólafur Hansson, sá fjölfróði og frábæri lærifaðir, um ,,tátólógíu” og nefndi í því sambandi orð eins og halarófu og Vatnsskarðsvatn.

 

 

AÐ DETTA UM SÍNA EIGIN FÆTUR

Undarlega var að orðið komist um banaslys í Miklagljúfri í Bandaríkjunum, sem mbl.is sagði frá (13.07.2016): ,, .. að Burns hafi verið að færa sig til þess að ann­ar fjall­göngumaður kæm­ist fram hjá henni og náði þá ein­hvern veg­inn að detta um sína eig­in fæt­ur og féll aft­ur fyr­ir sig.” . Konunni varð fótaskortur, hún missti fótanna, hefði verið eðlilegra að segja.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/07/13/hrapadi_til_bana_i_miklagljufri/

 

 

EINKENNILEG FYRIRSÖGN

,,Mannskapurinn gjörsigraður”, segir í fyrirsögn á mbl.is (13.07.2016). Verið er að vitna í orð björgunarsveitarmanns um störf leitarmanna við mjög erfiðar aðstæður inni á öræfum.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/13/mannskapurinn_gjorsigradur/

Molaskrifari hallast að því að hér hefði fremur átt að segja að menn væru örmagna, úrvinda af þreytu, frekar en gjörsigraðir.

Fr´ttinni lýkur á þessum morðum: ,, Veðuraðstæður eru góðar á vett­vangi en um­hverfið er hins veg­ar þröngt og erfitt.” Hér hefði mátt segja , til dæmis: – Veður á staðnum er gott, en þrengsli þar sem áin rennur undir glerhart hjarn gera leitarmönnum erfitt fyrir

Fram kom  að mennirnir ætluðu síðan að halda leit áfram eftir vel þegna og verðskuldaða hvíld. Maðurinn fannst vegna harðfylgi björgunarmanna, en var þá látinn. Íslenskir björgunarsveitarmenn vinna hvert þrekvirkið á fætur öðru. Þeir eru ávallt til taks, þegar kallað er eftir aðstoð. Almenningur hefur sýnt að hann metur sjálfboðaliðastörf þessa fólks mikils.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>