«

»

Molar um málfar og miðla 1982

AÐ SIGRA LAUGAVEGSHLAUPIÐ

Gamall vinnufélagi og vinur skrifaði (16.07.2016):,, Sæll og blessaður, félagi.
Þetta var fyrirsögn á frétt á ruv.is í dag (16/07/2016, kl. 16:48):
Meek og Camus sigruðu Laugavegshlaupið“
Eru engin takmörk fyrir metnaðarleysinu eða eru engin skilyrði lengur fyrir ráðningu fólks á fréttastofu Ríkisútvarpsins?
Og nú ríða „meðlimir“ röftum á sömu stofnun og það oft á dag.
Ja, hérna. Það er af sem áður var.” –  Kærar þakkir fyrir bréfið. Metnaðurinn virðist ekki til staðar á fréttastofunni og yfirstjórn ábótavant.  Það er vissulega af sem áður var. – Þessi ambaga var reyndar leiðrétt síðar, en hefði aldrei átt að komast á skjáinn, – sú staðreynd sýnir að þarna er pottur brotinn.

 

MYNDATEXTI

Þorvaldur skrifaði (17.07.2016): ,, Sæll Eiður.  Myndatexti úr vefmogga dagsins:  „Heimamenn á Skaga unnu að því að koma dýrinu í geymslu sem síðan bíður skoðunar vísindamanna„.  Vonandi gleyma þeir ekki að skoða dýrið.” Já, vonandi gleyma þeir ekki bangsa! Þakka bréfið , Þorvaldur.

BENSÍNTANKUR SKIPSINS

Þorvaldur skrifaði (14.007.2016): ,, Sæll Eiður.
Í Mogga fyrir skemmstu segir frá glæsisnekkjunni Galileo. Þar er sagt að snekkjan sé alls 726 tonn að þyngd og komist 11000 sjómílur á fullum bensíntanki. Tvennt er við þetta að athuga. Sá sem skrifar um skip á að vita að stærð þeirra er skilgreind í brúttó tonnum, sem hata ekkert með þyngd skipsins að gera. Hitt er að skip ganga ekki fyrir bensíni. Fréttabarnið hefur trúlega heyrt föður sinn ræða hve langt heimilisbíllinn komist á tanknum.”

Þakka bréfið, Þorvaldur. Bensínskip eru kannski það nýjasta í skipatækni !

 

TIL UMHUGSUNAR – GULLKORN!

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (13.07.2016): ,, Sæll,

Hér eru „gullkorn“ úr mbl.is:

Björg­un­ar­menn á vett­vangi í Sveins­gili hafa nú náð að staðsetja mann­inn sem leitað hef­ur verið að í ánni und­ir skafl­in­um. […] Þar seg­ir að aðrir björg­un­ar­sveit­ar­menn séu að ganga frá á vett­vangi, bæði við ána og í Land­manna­laug­um þar sem vett­vangs­stjórn­stöð hef­ur verið starf­rækt.

[…] lög­regl­an vill þakka þeim fjöl­mörgu viðbragðsaðilum sem að leit­inni komu ...

Ofmiklar málalengingar og tafs í afar stuttri frétt þar sem undarleg orð eru valin í stað eðlilegs og skiljanlegs máls.

Björgunarsveit á vettvangi í Sveinsgili; Björgunarmenn í Sveinsgili

Staðsetja; finna/vita hvar maðurinn er

Ganga frá á vettvangi; yfirgefa staðinn

Vettvangsstjórnunarstöð; stjórnstöð

Starfrækt; (sleppa þessu, stjórnstöðin var einfaldlega í Landmannalaugum. Punktur)

Viðbragðsaðilar; björgunarsveitamenn.

Þakka bréfið, Sigurður. Það er rétt, að fréttir eiga að vera á skýru máli og skiljanlegu, vafningalausu og án málalenginga. Þar er ekki víst að mbl.is sé neitt verra en aðrir fréttamiðlar.

 

BYGGINGAKRANAR FJÖLMENNA!

Í fyrirsögn í Garðapóstinum (14.07.2016) segir: Fjölmennasta byggingarkranahverfið í Garðabæ. Nú eru byggingakranar sem sagt orðnir mennskir! Eðlilegt hefði verið að segja:  Flestir byggingakranar í Garðabæ.  Kranarnir  munu vera 35, flestir í Urriðaholti.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>