«

»

Molar um málfar og miðla 1999

FÁ SITT FRAM

Formaður fjárlaganefndar, skrifaði á fasbók, og Hringbraut birti einnig (07.08.2016) : , „Það er gríðarlegt ofbeldi sem beitt er í þinginu – frekjan er rosaleg – við höfum verið kölluð pólitískir hryggleysingjar og lindýr – ef þau fá ekki sínu fram – þá er þingið tekið í gíslingu – Svandís fer fyrir aðgerðum,“. Hér hefði mátt nota annað orðalag , – til dæmis; – ef þau fá ekki sitt fram, ef þau fá ekki sínu framgegnt, ef þau ná ekki sínu fram. Bara ekki; fá sínu fram. Það er út í hött.

 

HÁDEGIN

Málglöggur Molalesandi benti skrifara á að í yfirliti hádegisfrétta Ríkisútvarpsins á sunnudag (07.08.2016) hefði fréttaþulur að minnsta kosti tvisvar talað um hádegin í lýsingu á veðri, um hádegin, eftir hádegin. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Hann hlustaði aftur á fréttayfirlitið og heyrði sömuleiðis ekki betur en talað væri um hádegin. Orðið hádegi er til í fleirtölu. En þarna átti fleirtalan ekkert erindi.

 

GIN EÐA GINN-

Molalesandi skrifaði (07.08.2016):,, Sæll vertu.
Var að lesa grein eftir Ögmund Jónasson í Mbl. þar sem hann ræðir heilbrigðismál. Þar talar hann um að vera eða vera ekki ,,ginkeyptur“ fyrir einhverju. Nú spyr ég þig: Er þetta rétt sagt? Ég hef haldið, að segja eigi ginnkeyptur – sbr. sögnina að ginna og að láta ginnast. Að ginkaupa einhvern myndi ég ætla að merkti að ,,kaupa“ stuðning eða samþykki einhvers fyrir gin – og þá hvers konar gin? Beefeaters eða Gordons – eða fyrir hvaða snaps sem er ?” – Þakka bréfið. Auðvitað á þetta að vera ginnkeyptur. Segir sig eiginlega sjálft. – Ákafur í að kaupa, sólginn í e-ð, segir orðabókin.

 

AÐ VALDA EKKI …

Of margir fréttaskrifarar valda því ekki að nota sögnina að valda. Þetta er úr frétt á DV /07.08.2016)um spænsk hjón,sem vildi skíra son sinn Úlf (Lobo) : Seinna var þeim sagt að nafnið þekktist einnig sem ættarnafn á spænsku og gæti því ollið misskilningi. Valdið misskilningi, hefði þetta átt að vera.

http://www.dv.is/frettir/2016/8/7/mattu-ekki-skira-son-sinn-ulf-thotti-modgandi-fyrir-barnid/

Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=433173

 

ENN EINU SINNI

Í fréttayfirliti í upphafi frétta Ríkissjónvarps (09.08.2016), las fréttaþulur: Piltur sem grunaður er um að hafa …. hefur verið gert að sæta geðarannsókn.  Pilti hefur verið gert að sæta geðrannsókn. Þetta var rétt í fréttinni. En villan var endurtekin í fréttayfirlitinu í fréttalok. Sá sem samdi yfirlitið hefur greinilega ekki ríka málkennd. Svona villur sér maður og heyrir æ oftar , – því miður.

En rétt er að fram komi að í seinni fréttum sjónvarps sama kvöld hafði þetta verið lagfært.

 

LEIÐRÉTT

Í Molum gærdagsins (1998) var vitnað í Bylgjufréttir af fiskideginum mikla á Dalvík. Sagt var að í fréttinni verð verið sagt að aldrei hefðu fleiri heimsótt daginn. Þarna var um misheyrn að ræða hjá Molaskrifara, því sagt var að aldrei hefðu fleiri heimsótt bæinn. Hlutaðeigandi á Bylgjunni er beðinn velvirðingar á þessum mistökum Molaskrifara.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>