«

»

Molar um málfar og miðla 2000

ÖÐRUVÍSI MOLAR

Lengi hef ég haft dálæti á þessari málsgrein úr Eglu, Egils sögu Skallagrímssonar. Hún er á bls. 14 í Sigurðar Kristjánssonar útgáfunni frá 1910.

,, Norður á Hálogalandi heitir fjörður Vefsnir. Þar liggur ey í firðinum og heitir Álöst, mikil ey og góð; í henni heitir bær á Sandnesi. Þar bjó maður, er Sigurður hét; hann var auðgastur norður þar; hann var lendur maður og spakur að viti. Sigríður hét dóttir hans og þótti kostur bestur á Hálogalandi; hún var einbirni hans og átti arf að taka eftir Sigurð, föður sinn.”- Þarna er svo óendanlega mikið sagt. Í stuttu máli. Landafræði,ættfræði og kostir konunnar, – allt svo hnitmiðað. Penninn er hér eins og aðdráttarlinsa sem beinir  lesandanum, að viðfangi sögunnar. –  Ritstjórar ættu að nefna það við fréttamenn að lesa eins og eina Íslendingasögu árlega. Rifjar upp, að Matthías Johannessen ritstjóri Morgunblaðsins sagði mér einu sinni frá blaðamanni, sem var að barma sér yfir vankunnáttu í íslensku. ,, Lestu Íslendingasögurnar”, sagði Matthías við hann.

 

Þessi málsgrein úr Egilssögu á sér svolitla samsvörun , – finnst mér, – í upphafsmálsgrein annarrar bókar, – frá öðrum tíma:

,,Engum sem farið hefur um Hrútadal dylst að hann er með fegurstu sveitum landsins. Hann er grösugur og grjótlaus. Veðursæld er þar mikil. Eftir dalnum rennur á, breið og straumþung ,samnefnd honum. Þar sem hún sameinast hafinu er verslunarstaður dalamanna, sem heitir Djúpiós, sjaldan kallaður annað en ,,Ósinn”.

Þetta er upphaf Dalalífs eftir Guðrúnu frá Lundi. Svo virðist sem hún sé nú fyrst metin að verðleikum.

 

En svo um allt annað:  Hér fer á eftir tilvitnun í eina frægustu blaðagrein síðustu aldar, Vörn fyrir veiru, eftir Vilmund jónsson landlækni. Greinin birtist í Frjálsri þjóð 7. maí 1955 og var svo gefin út sérprentuð. Vilmundur og dr. Sigurður Pétursson gerlafræðingur  deildu um hvort nota skyldi orðið vírus eða orðið veira. Sigurður vildi vírus, en Vilmundur veiru.

Sigurður hafði skrifað í Náttúrufræðinginn, lokahefti 1954 :,, Nafnið veira hefur líka verið notað á þennan lífveruflokk í íslenzku máli, en það virðist ekkert hafa fram yfir orðið vírus, nema tilgerðina. Orðið vírus fer vel í málinu og beygist eins og prímus”.

Þetta varð Vilmundi tilefni til að skrifa í þessari frægu grein:

,, Fyrir rúmum hundrað árum, svo ekki sé litið lengra aftur í tímann baslaði Jónas Hallgrímsson náttúrufræðingur og skáld við að þýða stjörnufræði á íslensku. Hann felldi sig einhvern veginn ekki rétt vel við að æter héti á íslenzku blátt áfram eter og nefndi ljósvaka,sem virðist ekkert hafa fram yfir orðið eter nema tilgerðina. Orðið eter fer vel í málinu og beygist eins og barómeter.

Æðilöngu síðar hugkvæmdist Sigurði L. Jónassyni stjórnarráðsritara að nefna territoríum landhelgi, sem virðist ekkert hafa fram yfir orðið territoríum nema tilgerðina. Orðið territoríum fer vel í málinu og beygist eins og sammensúrríum.

Um líkt leyti rak dr. Jón Þorkelsson rektor hornin í exemplar og kallaði eintak, sem virðist ekkert hafa fram yfir orðið exemplar nema tilgerðina. Orðið exemplar fer vel í málinu og beygist eins og ektapar.

Enn var það ekki fjarri þessum tíma að Arnljótur Ólafsson, síðar prestur, samdi Auðfræði sína og smíðaði fjölda nýyrða. Ekki bar hann beskyn á að kalla begrep einfaldlega begrip, heldur kaus hann nýyrðið hugtak, sem virðist ekkert hafa fram yfir orðið begrip nema tilgerðina. Orðið begrip fer vel í málinu og beygist eins og beskyn og bevís.

Um og eftir síðustu aldamót seldu allir skókaupmenn hér á landi og auglýstu ákaft galossíur. Þorsteinn Erlingsson skáld fann upp á því einhvern tíma þegar honum gekk illa að komast í galossíurnar, að kalla þennan nýja fótabúnað skóhlífar, sem virðist ekkert hafa fram yfir orðið galossíur nema tilgerðina. orðið galossía fer vel í málinu og beygist eins og drossía.

Á sama tíma voru cenrtifúgur auglýstar því nær í hverju íslensku blaði, uns Jón Ólafsson ritstjóri og skáld, nema það hafi verið einhver annar , gat ekki setið á sér og stakk upp á því að kalla þetta þarfa áhald bænda skilvindu, sem virðist ekkert hafa fram yfir orðið centrifúga, nema tilgerðina. Orðið centrifúga fer vel í málinu og beygist eins og Good-templarastúka.

Ekki reyni ég að rýna í það hvenær sá sundurgerðarmaður var uppi með íslenzkri þjóð sem gerði móðurmáli sínu það til óþurftar að þykjast þýða patríót á íslenzku og kalla föðurlandsvin, sem virðist ekkert hafa fram yfir patríót, nema tilgerðina. Orðið patríót fer vel í málinu og beygist eins og idíót.

Þannig má rekja þessa fáfengilegu tilgerðarrollu aftur og fram um ævi tungunnar, og má vera átakanlegt fyrir þá sem smekkinn hafa fyrir tilgerðarleysinu, enda skal hér brotið í blað”.  –  Sagði Vilmundur Jónsson í frægri blaðagrein,sem endurprentuð er í Með hug og orði . – Af blöðum Vilmundar Jónssonar landlæknis, Iðunn 1985. Þórhallur sonur Vilmundar sá um útgáfuna. Tvö bindi, – hvort öðru skemmtilegra. – En eru ekki orðið vírus og veira notuð jöfnum höndum í dag ?

Þessi pistill var öðruvísi svona í tilefni dagsins.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>