«

»

Molar um málfar og miðla 2001

HÖLDUM Í MÁLVENJUR

Molavin skrifaði (11.08.2016): ,,Gott er að halda í málvenjur en láta ekki frá sér fréttatexta í flýti og hugsunarleysi. Í frétt á dv.is segir (9.8.2016): „Huddleston skilur eftir sig eiginkonu og son.“ Ekki er ólíklegt að leikarinn látni hafi skilið eftir sig ýmsar eignir en málvenja er nú að segja að hann hafi „látið eftir sig“ konu og börn.”

Þetta er hverju orði sannara, – þakka bréfið, Molavin.

 

GÖMUL AFTURGANGA

Rafn skrifaði (11.08.2016) og vakti athygli á gömlum draugi, gamalli afturgöngu, sem birtist á mbl. is.

Rafn segir: ,, Hér birtir vefmoggi frétt um Kanadísku fjallalögregluna. Með öðrum orðum, þá er vanþekking algjör, bæði á ensku máli (mounted = á hestbaki) og á málefnum Kanada. Að sjálfsögðu er fréttin frá riddaralögreglunni (ellegar ríðandi lögreglunni), en ekki einhverri óþekktri fjallalögreglu. Þessi misskilningur hefir sézt áður.”

Þakka bréfið, Rafn. Já, þetta er áratuga gömul afturganga. – Svona stóð þetta á mbl.is

,, Aron Dri­ver vakti at­hygli kanadískra yf­ir­valda er hann lýsti yfir stuðningi við Ríki íslams.

Lög­regla Ont­ario í Kan­ada skaut í gær til bana grunaðan hryðju­verka­mann. Kon­ung­lega kanadíska fjalla­lög­regl­an vildi ein­göngu greina frá því að „gripið hefði verið til aðgerða“ gegn ein­um ein­stak­lingi að því er greint er frá á frétta­vef BBC.”

Frá því fréttir um þetta birtust fyrst vonaði Molaskrifari búið væri endanlega að kveða niður amböguna, þýðingardrauginn, konunglegu kanadísku fjallalögregluna. Sú von brást. Kannski fáum við aftur Moggafrétt um mann sem gekk á krukkum, hækjum, (d. krykker).

Rétt er að geta þess að konunglega kanadíska fjallalögreglan, breyttist seinna í kanadísku alríkislögregluna á vef mbl.is. Slæmt samt.

 

 

ÓFULLBURÐA FYRIRSÖGN

Segir mennina áður hafa reynt að byrla sér. Þessi fyrirsögn var á mbl.is (10.08.2016). Fyrirsögnin er endaslepp, ófullburða. Andlag sagnarinnar vantar. Að byrla e-m e-ð. Þarna hefði átt að standa: Segir mennina áður hafa reynt að byrla sér ólyfjan eins og segir raunar í fréttinni.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/08/10/segir_mennina_hafa_reynt_ad_byrla_ser/

 

AÐ,,PANIKKA”

Úr frétt á mbl.is (10.08.2016):,, Inn­an­rík­is­ráðherra Belg­íu, Jan Jam­bon, seg­ir hót­an­irn­ar vera það al­var­leg­ar að nauðsyn­legt sé að setja af stað neyðaráætlan­ir en að eng­in ástæða sé til þess að „panikka“. Óþörf sletta, að vísu höfð innan gæsalappa, til merkis um að þetta sé ekki gott og gilt orðalag. Þarna hefði til dæmis mátt segja að engin ástæða væri til að láta hræðslu, ótta, ná yfirhöndinni. Á ensku er talað um to panic, vera gripinn ofsahræðslu, örvænta. Orðið panikkera , panikera er reyndar íslenskri orðabók og sagt óformlegt,, fyllast skyndilegri örvæntingu, komast í uppnám.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/08/10/sprengjuhotanir_gegn_flugvelum_sas/

 

TILBOÐ SELD

,,Hátt í tíu þúsund tilboð seld”, segir í tölvupósti frá netsölunni Hópkaupum (11.008.2016). Molaskrifara finnst það ekki mjög vel að orði komist að tala um að tilboð séu seld ! En sumum finnst það kannski smámunasemi. Þá það.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Rúnar.

  2. Rúnar Guðjónsson skrifar:

    Sæll Eiður og þakka þér fyrir það enn og aftur að standa vaktina. Til hamingju með að hafa náð að fylla annað þúsundið. Kveðja Rúnar Guðjónsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>