«

»

Molar um málfar og miðla 2010

FÖSTUDAGURINN LANGI

Ingibjörg skrifaði (24.08.2016): ,,Ekki er Moggafólkið betra í ensku en í íslensku! Það veit ekki að Good Friday er föstudagurinn langi.,, Erlent | AFP | 24.8.2016 | 14:56

,,Hermaður lagði á ráðin um hryðjuverk –

Breskur hermaður var handtekinn í morgun grunaður um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk. Handtakan ten ist rannsókn á hryðjuverkum í Norður-Írlandi skv. upplýsing um frá breskum lögregluyfirvöldum.

Árið 1998 var Good Friday friðarsáttmálinn undirritaður sem batt endi á þriggja ára tuga langt skeið ofbeldis í N-Írlandi þar sem um 3.500 manns létu lífið.”. Þakka bréfið, Ingibjörg.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/08/24/hermadur_lagdi_a_radin_um_hrydjuverk/

Fréttin var sett á vefinn rétt fyrir klukkan 15 00 . Undir kl 2100 var föstudagurinn langi enn ekki kominn til skjalanna í fréttinni. Les enginn á ritstjórn mbl.is fréttirnar, sem þar eru birtar?

 

SJOMLI – SJOMLA

Það var prýðilega vel til fundið og vel gert hjá Brodda Broddasyni í hádegisfréttum Ríkisútvarps (25.08.2016) að skýra fyrir okkur   (einkum okkur gamlingjum!) hvað orðið sjomli , kvk. sjomla þýðir. Orðið hafði komið fyrir í hljóðklippi í fréttum. Þetta er sem sagt slanguryrði, afbökun á orðinu gamli, gamla. Molaskrifari játar í fullri hreinskilni að þetta vissi hann ekki. Svo lengi lærir sem lifir.

 

BROTHÆTT ÁSTAND

Í fréttum Ríkissjónvarps um hörmungarnar í kjölfar jarðskjálftanna á Ítalíu (25.08.2016) var sagt að ástandið væri brothætt. Þetta er óíslenskulegt orðlag, enda sennilega hráþýðing úr ensku, sem ekki ætti að heyrast í fréttum, fragile situation, – getur brugðið til beggja vona. Ástandið var erfitt, mjög erfitt. Ástand getur ekki verið brothætt. Fréttin var annars vel unninn og vel fram sett.

 

 

ÁSMUNDUR

Þakkir fær Ríkissjónvarpið fyrir prýðilegan, stórgóðan, Íslendingaþátt um Ásmund Sveinsson, myndhöggvara, í vikunni. Ásmundur var einn okkar merkasti listamaður á liðinni öld. Molaskrifari sá hann svolítið í nýju ljósi í þessari ágætu samantekt Andrésar Indriðasonar. Takk.

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>