«

»

Molar um málfar og miðla 2011

ÁHAFNARMEÐLIMIR OG FLEIRA

 Áhafnarmeðlimir hafa ítrekað komið við sögu í fréttum að undanförnu. Hálfgert leiðindaorð ( d. besætningsmedlem). Stöku sinnum hefur þó verið talað um flugliða, – betra.

Í Speglinum (26.08. 2016) var sagt: ,, Einkenni sem þeir flugliðar, sem veikst hafa um borð í vélum Icelandair lýsa svipað … afsakið, – svipar um margt til einkenna súrefnisskorts”. Rangt upphaf setningar. Hefði átt að vera: ,, Einkennum , sem ….. svipar um margt til …” Of algeng villa. Það á ekki að þurfa neitt hugrekki til að hafa frumlag í réttu falli í upphafi setningar. Það þarf hinsvegar að kunna svolítið í málfræði.

Meira af sama úr fréttum og af fréttavef útvarps (28.06.2016): ,,Stjórnarandstaðan segir handtaka hans í nótt vera tilraun stjórnvalda til að bæla niður óánægjuraddir og sögðu Ceballos vera pólitískan fanga”. Hefði átt að vera: :,, Stjórnarandstaðan segir handtöku hans í nótt …”. Hvað er til ráða? http://www.ruv.is/frett/leidtogi-stjornarandstaedinga-aftur-i-fangelsihttp://www.ruv.is/frett/leidtogi-stjornarandstaedinga-aftur-i-fangelsi

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (27.08.2016) var tvívegis talað um meðlimi hersins.  Eðlilegra hefði verið að tala um fulltrúa hersins eða hermenn, herforingja, ef því var að skipta. Ekki meðlimi hersins.

 

 

TÖLUR

,,Tvö hundruð níu tíu og einn létust í slysinu ….” var sagt í fréttum útvarps á sunnudagsmorgni (28.08.2016). Tvö hundurð níu tíu og einn lést í slysinu, hefði farið betur á að segja.

 

FÍLABEIN

Í síðdegisfréttum Ríkisútvarps (28.08.2016) fjallað um fíladráp og ólöglega verslun og smygl á fílabeini. Orðið fílabein var ítrekað notað í fleirtölu. Það stangaðist á við málkennd Molaskrifara. Talað var um smygl á fílabeinum. Fílabein segir orðabókin að sé fílstennur, tennur úr fíl. Í beygingarlýsingu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar er einungis að finna eintölumynd orðsins. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=f%C3%ADlabein

En sennilega er ekki hægt að segja það rangt að nota orðið í fleirtölu þótt það stangist á við rótgróna málvenju.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>