«

»

Molar um málfar og miðla 2028

 

AÐ BERA AÐ GARÐI

Að bera að garði. Einhvern bar að garði, – það kom einhver, það kom gestur. Þorvaldur skrifaði (03.10.2016): ,,Sæll enn Eiður.
Í fréttum sjónvarps áðan var sagt frá því að eftirvænting skólabarna á Patreksfirði hafi verið mikil þegar forsetahjónin „báru að garði„. Ekki fylgdi sögunni hver byrði hjónanna var.” Þakka bréfið, Þorvaldur. Hér hefur einhver skrifað, (það er víst ekki lengur hægt að segja, – haldið á penna) , sem ekki kann að nota þetta orðtak.

 

ERLENDIS

Of oft heyrir maður talað um að fara erlendis. Ef við förum til útlanda, þá erum við erlendis. Erlendis er atviksorð, dvalarorð. Við förum ekki erlendis. Við förum út eða förum utan Þeir sem s eru í útlöndum eru erlendis. Áður var stundum sagt um þá sem komu til Íslands að þeir hefðu komið upp. Sem barni fannst Molaskrifara það mjög undarlega til orða tekið.

Þegar Færeyingar tala um að fara til Danmerkur tala þeir um að fara niður.

 

KRAKKAFRÉTTIR

Molaskrifari hefur orðið þess var að svokallaðar  Krakkafréttir Ríkissjónvarps njóta vinsælda. Auðvitað má um það deila hvort flytja eigi sérstakar fréttir fyrir börn. En í þessum þáttum ber að leggja sérstaka áherslu á vandað málfar og ekki tala um að sýning opni, þegar sýning er opnuð (03.10.2016).

 

KÚABRODDAMJÓLK

Í auglýsingu um einn af Kínalífselexírunum sem nú má lesa um í öllum blöðum og á netinu var talað um kraftaverkalyf sem búið væri til m.a. úr kúabroddamjólk. Molaskrifari hefur heyrt talað um brodd, ábrystir, kúabrodd. En orðið kúabroddamjólk hefur hann aldrei heyrt.

 

SKÆRINGAR

Í fréttum St0öðvar tvö var talað um  þessar miklu skæringar. Gott ef ekki var átt við deilurnar í Framsókn. Þarna hefur fréttamaður sennilega verð með orðið í huga, gamalt og gott orð yfir deilur og illindi.

EKKI HÆTTUR

Alltaf öðru hverju er þeirri spurningu beint til Molaskrifara hvort hann sé  hættur að skrifa um málfar.? – Nei, svara ég. Skrifa yfirleitt 4-5 sinnum í viku. -Hvar birtast skrifin, er þá stundum spurt. Á heimasíðunni minni www.eidur.is , á fasbók ,á moggabloggi, blog is, og á twitter.

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfa. Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður Oddgeirsson skrifar:

    í gamla daga, þegar Jes Simsen var og hét og sá um afgreiðslu skipa á vegum DFDS (De Forenede Dampskibs selskaber), gat að líta auglýsingu um komur og siglingar skipa til og frá Íslandi og dagsetningar. Opadgående (frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkkur) og nedadgående (frá Grænlandi yfir Reykjavík og Færeyjar til Kaupmannahafnar)
    Í dönsku er op sama og norður og ned sama og suður. Má líkja því við íslenzka málvenju a.m.k. á Suðurlandi, að út þýði annað hvort vestur eða niður að strönd, nema hvortveggja sé. Uppi í Hreppum fóru menn í kauðstaðarferðir út á Bakka.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>