«

»

Molar um málfar og miðla 2029

GRÓUSÖGUR

Fríða Björnsdóttir fyrrverandi blaðamaður skrifaði Molum (05.10.2016): ,,Sælir Eiður, þar sem máltilfinning mín er að hverfa langar mig að spyrja þig um eitt. Í gærkvöldi var rætt við forstöðumann Útlendingastofnunar um allan þann fjölda hælisleitenda sem hingað streymir frá Balkanskaganum. Sagði hún þá að það stafaði líklega af Gróusögum sem gengju þar um ágæti Íslands og allt sem mönnum býðst sem hingað koma. Mér finnst Gróusögur ekki geta orðið til þess að mann langi til að heimsækja eitthvert land, því i mínum huga er þetta svo neikvætt orð. Segðu mér hvort ég hef á réttu að standa eður ei. Takk, takk.”

Kærar þakkir fyrir bréfið, Fríða. Máltilfinning þín er hreint ekkert að hverfa. Molaskrifari hjó eftir þessari orðnotkun líka. Orðið Gróusaga er neikvætt orð. Hér hefði verið nær að tala um sögusagnir eða orðróm.

 

Á ALÞINGI

Það er allur gangur því hve þingmönnum lætur vel að tjá sig í ræðustóli, eða hve vel þeir eru að sér um notkun móðurmálsins.- Svo kemur upp úr krafsinu, – sagði þingmaður Bjartrar framtíðar á þriðjudaginn (04.10.2016). Þingmaðurinn ætlaði væntanlega að segja: Svo kemur upp úr kafinu , – svo kemur í ljós, svo kemur það á daginn. Að hafa eitthvað upp úr krafsinu, er að fá umbun eða laun fyrir viðleitni. – Hann talaði við fjölmarga embættismenn og hafði það upp úr krafsinu, að sannað þótti að lög hefðu verið brotin á honum.

Næstur í ræðustól var ungur þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann hóf ræðu á sína á því að segja: Mér langar …. og sagði undir lokin: Ég vill líka taka fram

Meira um orðfæri þingmanna. Í útvarpi Sögu heyrði skrifari brot úr þætti (04.10.2016) þar sem þrístirnið, formaður fjárlaganefndar , útvarpsstjóri og stjórnarformaður Sögu bulluðu út í eitt. Formaður fjárlaganefndar sagði: Ég held að Sigurður Ingi hafi brostið kjarkur til að …. Það var og.

 

 

 

 

MÁLHEILSU HRAKAR

Þótt vissulega starfi margt vel skrifandi og vel málið farið fólk við Morgunblaðið er eins og málheilsu blaðsins fari hrakandi.

Á miðvikudag (05.10.2016) var fjögurra dálka fyrirsögn á bls. 11: Griðarstaður ofbeldisþola. Þetta átti að vera Griðastaður ofbeldisþola. Griðarstaður er út í hött. Orðið grið, friður, er fleirtöluorð. Griðastaður, segir orðabókin, er staður þar sem einhver er óhultur, skjólshús, hæli. Þetta var rétt í fréttilkynningu og á mbl.is. Þar var réttilega talað um griðastað.

En hér er svo skondin fyrirsögn af mbl.is (05.10.2016): Pissaði á hús og var ógnandi.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/05/pissadi_a_hus_og_var_mjog_ognandi/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>